Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Fréttaskot – apríl

Eftir Fréttir

Kolviður fær reglulega spurningu um hvar plönturnar sem sjóðurinn gróðursetur fari niður. Hingað til hefur verið gróðursett á tveimur stöðum – Geitasandi á Rangárvöllum og Úlfljótsvatni – og nú í sumar er fyrirhugað að bæta í hópinn tveimur svæðum, í Reykholti í Borgarfirði og við Húsavík.

Ársfundur Kolviðar hefur vanalega verið haldinn að vorlagi. Þar sem enn ríkir töluverð óvissa um samkomur í þjóðfélaginu var ákveðið að slá fundinum á frest fram á haust og er nú stefnt að því að halda fundinn þann 26. ágúst.

Ýmis fyrirtæki í samstarfi við Kolvið (og reyndar fleiri aðilar!) hafa forvitnast um möguleika á því að fá að taka þátt í gróðursetningu. Kolviður er nú með í undirbúningi að bjóða samstarfsaðilum upp á loftslagsdag, þar sem þetta væri í boði og er stefnt að því að halda hann laugardaginn 29. ágúst. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag koma síðar.

Samningur við Hópbíla undirritaður

Eftir Fréttir

Hópbílar í Hafnarfirði hafa samið við Kolvið um að kolefnisjafna rútuakstur félagsins ásamt vinnutengdum flugferðum starfsmanna frá og með árinu 2020.

Þetta mun vera stærsti samningur sem Kolviður hefur gert við íslenskt fyrirtæki til þessa en áætlanir gera ráð fyrir að gróðursett verði um 18.600 tré árlega á rúmlega 7 hektara lands.

Pálmar Sigurðsson, skrifstofu- og umhverfisstjóri félagsins var mjög ánægður að lokinni undirskrift. „Við erum mjög meðvituð um umhverfisáhrif starfseminnar og það er einlæg stefna okkar að lágmarka þau áhrif og bæta stöðugt árangur í umhverfismálum. Við höfum ætíð gert umhverfisvernd hátt undir höfði í starfsemi okkar samanber það að árið 2003 vorum við með fyrstu fyrirtækjum landsins til að innleiða umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001. Við erum því mjög stolt að vera einnig leiðandi í að stíga það stóra skref að kolefnisjafna akstur rútuflotans, fyrstir rútufyrirtækja“ .

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs sagði mjög mikilvægt að fá fyrirtæki eins og Hópbíla í lið með Kolviði. „Við hjá Kolviði fögnum mjög þessu skrefi sem Hópbílar eru að taka í dag. Það er afar mikilvægt að stór fyrirtæki í svona rekstri sýni í verki samfélagslega ábyrgð og taki þátt í að vinna gegn þeirri vá sem losun gróðurhúsalofttegunda er. Við hlökkum mjög til þessa samstarfs við Hópbíla“.

Hópbílar hafa samhliða þessum samningi innleitt hjá sér rekstrarkerfi frá Klöppum grænum lausnum hf. sem kortleggur og safnar saman í grænt bókhald heildarnotkun félagsins á olíu, úrgangi, rafmagni og heitu og köldu vatni og reiknar út CO2 losun vegna þeirra þátta. Það kemur til með að gagnast félaginu mjög vel við að ná betri árangri í umhverfismálum.

Samningur við Festi undirritaður

Eftir Fréttir

Eign­ar­halds­fé­lagið Festi hf. og dótt­ur­fé­lög­in N1, Krón­an, Bakk­ans og ELKO skrifuðu nýlega und­ir samn­ing við Kolvið sem fel­ur í sér að út­reiknuð los­un gróður­húsaloft­teg­unda vegna beinna áhrifa frá rekstri Fest­ar og dótt­ur­fyr­ir­tækj­anna verður kol­efnis­jöfnuð.

Samn­ing­ur­inn gild­ir fyr­ir tíma­bilið 2018 til 2019.

Rúm­lega 5.000 tré koma til með að verða gróður­sett til að fram­kvæma kol­efn­is­bind­ing­una, en það jafn­gild­ir um tveimur hekturum af skóg­lendi ár­lega á þeim svæðum sem Kolviður hef­ur umsjón með.

Hafa fyr­ir­tæki inn­an Fest­ar áður stigið álíka græn skref. Fyr­ir þetta verk­efni var inn­leidd hugbúnaðarlausn frá Klöpp­um græn­um lausn­um hf. til að kort­leggja og reikna út los­un gróðurhúsaloft­teg­unda frá starf­semi fyr­ir­tækj­anna.

Eggert Þór Kristó­fers­son, for­stjóra Fest­ar og Reynir Krist­ins­son, stjórn­ar­formaður Kolviðs, við undirritun samningsins.

Bónus gerir samning við Kolvið

Eftir Fréttir

Bónus hefur nú kolefnisjafnað rekstur verslana sinna fyrir árið 2018, en Bónus og Kolviður undirrituðu samning þess efnis þann 21. maí.

Í samstarfi við fyrirtækið Klappir Grænar Lausnir hf. var kolefnisspor verslana Bónus um land allt, árið 2018, reiknar, en umhverfisstjórnunarhugbúnaður Klappa hefur nú verið innleiddur í verklag Bónus, sem mun hjálpa fyrirtækinu að ná enn betri árangri í umhverfismálum. Samkvæmt útreikningum var losun Bónsu árið 2018 667 tonn CO2 og verða 6.670 tré gróðursett til að jafna það út, sem mun í framtíðinni mynda um 2 hektara skóg.

Ölgerðin gerir samning við Kolvið

Eftir Fréttir

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. hefur gert samning við Kolvið um að kolefnisjafna helming heildarlosunar fyrirtækisins. Ölgerðin er, líkt og mörg önnur stór fyrirtæki, búin að innleiða heildstæða hugbúnaðarlausn, Klappir Core frá fyrirtækinu Klappir, Grænar lausnir hf. Hugbúnaðurinn vaktar losun í rauntíma og stuðlar þannig að minni losun og bættri yfirsýn yfir reksturinn. Mjög er þetta í anda Kolviðar sem hefur frá upphafi lagt áherslu á minni losun og að óhjákvæmileg losun sé kolefnisjöfnuð.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, við undirritun samningsins.

Ársfundur Kolviðar 2019

Eftir Fréttir

Ársfundur Kolviðar var haldinn á fyrsta degi þorra og var vel sóttur. Um var að ræða hádegisfund og var boðið upp á ljúffenga grænmetissúpu og brauð frá Sölufélagi garðyrkjumanna.

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, rakti rekstrartölur Kolviðar frá upphafi. Umtalsverð aukning hefur orðið í sölu kolefnisbindingar og þá sérstaklega síðast liðin þrjú ár. Unnið hefur verið að stefnumótun fyrir sjóðinn og tókst að ljúka henni fyrir áramót. Í kjölfarið var ákveðið að endurnýja vefsíðu Kolviðar.

Einar Gunnarsson, stjórnarmaður Kolviðar, greindi frá skógræktarverkefnum sjóðsins.

Dr. Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, fjallaði um rannsóknir sínar og annarra á kolefnisbindingu í trjám og gróðri. Að lokum fjölluðu Björn Traustason, sérfræðingur á Rannsóknarstöð Skógræktarinnar á Mógilsá, og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um hugmyndir að loftslagsskógi á Mosfellsheiði. Auk þess að binda kolefni myndi slíkur skógur skýla byggð á höfuðborgarsvæðinu fyrir tíðum austanáttum og verða útivistarskógur líkt og Heiðmörkin.

Fundargestir gerðu góðan róm að því sem bar á góma og horfa björtum augum til framtíðar.

 

Erindi Reynis Kristinssonar (pdf)

Erindi Einars Gunnarssonar (pdf)

Erindi Brynhildar Bjarnadóttur (pdf)

Erindi Björns Traustasonar og Einars Sveinbjörnssonar (pdf)

Lykill kolefnisjafnar bílaflotann

Eftir Fréttir

Nýverið var skrifað undir samning milli Kolviðar og Lykils um að kolefnisjafna bílaflota Lykils. Framtak Lykils er lofsvert í ljósi þess að fyrirtækið er að taka á sig losun viðskiptavina sinna.

Kolviður skuldbindur sig þar með til að gróðursetja 10.000 tré á ári til að kolefnisjafna 1.000 tonna losun á CO2.

F.v. Einar Gunnarsson stjórnarmaður Kolviðar, Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðar og Sverrir Viðar Hauksson, sviðstjóri viðskiptasviðs Lykils fjármögnunar.

Gróðursetning hafin í Kolviðarskóginum á Úlfljótsvatni

Eftir Fréttir

Gróðursetning í Kolviðarskóginum er kominn á fullan skrið en þar verða gróðursettar a.m.k. 60 þúsund plöntur í ár. Á síðasta ári stóð Kolviður fyrir gróðursetningu á 89.979 plöntum á Úlfljótsvatni og 16.785 plöntur voru gróðursettar á Geitasandi. Alls voru því gróðursettar 106.764 plöntur í Kolviðarskóga á síðasta ári og lætur nærri að það sé um 4% allra gróðursettra skógarplantna ársins.

Kolviður kaupir 12 milljónir birkifræja

Eftir Fréttir

Nýverið tryggði Kolviður sér birkifræ til að nota í verkefnum sínum á næstu árum. Vegna langvarandi vanefnda stjórnvalda á framlögum til skógræktar hafa plöntuframleiðendur einn af öðrum verið að hellast úr lestinni. Nú er fullkomnasta skógarplöntustöð landsins, Barri ehf á Fljótdalshéraði, að leggja niður starfsemi og selja frá sér alla lausa muni. Það varð úr að Kolviður keypti birkifræforða Barra sem geymdur er í Svíþjóð. Um er að ræða birkifræ af Bæjarstaðauppruna safnað í Bolholti á Rangárvöllum og Tinmýri á Hallormsstað.