Skip to main content

Um okkur

UPPHAFIÐ

Hugmyndin að nafni og stofnun Kolviðar kom frá hljómsveitinni Fræbbblunum, sem árið 2003 hélt minningartónleika um Joe Strummer, söngvara hljómsveitarinnar Clash og stofnanda ámóta sjóðs og Kolviðar sem kallaðist „Future Forests“. Tónleikarnir voru haldnir í samvinnu við Landvernd og Skógræktarfélag Íslands. Ágóði tónleikanna rann til Kolviðar. Nafnið varð til á hugarflugsfundi Fræbbblanna skömmu fyrir formlega stofnun sjóðsins árið 2006.

MARKMIÐ

Markmið Kolviðar er aukin binding kolefnis í skógarvistkerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti, að binda jarðveg og draga úr jarðvegseyðingu, að auka vitund almennings og fyrirtækja um losun gróðurhúsalofttegunda, og að stuðla að fræðslu um tengd málefni.

Markmið verkefnisins eru því margþætt, á sama tíma og kolefnisbinding á sér stað, á sér stað binding jarðvegs og auðgun gróðurvistkerfa.

Með því að gera aðilum kleift að taka ábyrgð á eigin losun og bregðast við með áþreifanlegum hætti næst árangur. Fyrsta skrefið er ávallt að reyna að draga úr losun. Með bindingu má vega upp á móti þeirri losun sem ekki verður komist hjá.

HUGMYNDIN

Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, einkum koldíoxíðs (CO2), hefur aukist gríðarlega á síðustu fimmtíu árum. Að óbreyttu mun sú aukning halda áfram af vaxandi þunga sem gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir umhverfi og lífsskilyrði jarðarbúa. Þennan vöxt í styrk koldíoxíðs má fyrst og fremst rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis auk eyðingar skóga og hnignunar gróðurvistkerfa.

Hugmyndafræðin að baki Kolviði byggir á bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu með skógrækt en tré binda kolefni (C) en leysa súrefni (O2), út í andrúmsloftið. Sjóðurinn hvetur til að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda af fremsta megni, og til kolefnisbindingar í jarðvegi og gróðri fyrir þá losun sem óhjákvæmileg er.

STOFNENDUR

Stofnendur Kolviðar eru Skógræktarfélag Íslands og Landvernd

KOLVIÐARSKÓGAR

Kolviðarskógar eru skógar sem eru ræktaðir eða friðaðir í þeim tilgangi að sporna við uppsöfnun koldíoxíðs (CO2) í andrúmsloftinu.

Með ljóstillífun breyta tré koldíoxíði og vatni í sykrur (kolefnasambönd) og skilja út súrefni. Kolefni binst í stofni, rótum og greinum en einnig í skógarbotni og í jarðvegi.

Bindigeta skóga er breytileg eftir landgæðum og tegundasamsetningu skógarins. Samkvæmt rannsóknum Rannsóknarstöðvar skógræktar getur árleg binding numið um og yfir 20 tonn af CO2 á hektara. Val trjátegunda hefur einnig áhrif. Sumar trjátegundir lifa um mannsaldur en aðrar vaxa í mörg hundruð ár.

Ræktaðir verða fjölbreyttir skógar sem binda kolefni auk þess sem þeir gegna fjölþættu hlutverki fyrir menn og lífríki.

Kolviður vinnur eftir leiðbeiningum Skógræktarfélags Íslands um Skógrækt í sátt við umhverfið,  rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, ISO-14064-2 staðlinum og lög og reglugerðir um skógrækt. Leiðbeiningar um Skógrækt í sátt við umhverfið voru unnar í samvinnu við allar helstu stofnanir á sviði náttúruverndar og landgræðslu og umhverfisverndarsamtök. Þar eru upplýsingar um hvaða þættir það eru sem þarf að taka tillit til eða varast við skógrækt, t.d. hvað varðar náttúruvernd. Kolviður gerir langtímasamninga við landeigendur og skógræktendur um ræktun kolefnisskóga á áður skóglausu landi. Gengið er þannig frá samningum við landeigendur að ef skógur þarf að víkja vegna almannahagsmuna fái Kolviður tapaða bindingu að fullu bætta.

Fyrsti Kolviðarskógurinn er á Geitasandi í landi Stóra-Hofs á Rangárvöllum. Nú ræktar Kolviður skóga víða um land.