Spurt og svarað

Algengar spurningar sem koma upp:

– Það að hætta að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið virkar strax en það tekur skógana svo langan tíma að binda kolefni á móti losuninni.

Það er mjög mikilvægt að draga úr losun og ekki skal draga úr því. Þessi umræða var mjög hávær þegar Kolviður hóf starfsemi fyrir rúmum 10 árum síðan. Hins vegar taka slíkar kerfisbreytingar langan tíma sem sannast af því að losun hefur því miður aukist bæði hérlendis og á heimsvísu undanfarin ár. Á það jafnt við losunin frá hrörnandi landi, brennslu á jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum. Að halda því fram að samdráttur í losun sé fljótvirkari aðgerð en skógrækt er því afar hæpin fullyrðing. Loftslagsmál hafa nefnilega ekki sama tímaskala og skammsýn samfélög manna.

Tímaskali loftslagsmála og skóga eða jarðsögu falla betur saman en tímaskali flestra Íslendinga. Þannig er helmingunartími CO2 í andrúmsloftinu ámóta og vaxtarlota nytjaskóga á Íslandi, þetta 35-95 ár. En helmingurinn er enn að hrella okkur eftir hundrað ár og fjórðungur jafnvel eftir 1000 ár. Vegna þess hve lengi við höfum verið að dæla CO2 út í andrúmsloftið mun líða langur tími þar til þróuninni verður snúið við jafnvel þótt hressilega væri dregið út losun.

Þá má heldur ekki gleyma því að stór hluti loftslagsvandans er skógareyðing og eyðimerkurmyndun í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku, Suður-Evrópu og Mið-Austurlöndum auk Íslands. Við eyðingu skóga losnar mikið af bundnu kolefni út í andrúmsloftið í formi gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem eyddir skógar binda ekki CO2 nema skógar vaxi upp á ný. Við þurfum nauðsynlega að ná C-inu til baka og mynda við það hið lífsnauðsynlega O2. Skógurinn er okkar lífsbjörg að þessu leyti, auk þess sem loftslagsávinningur skóganna er einungis hluti af hans gæðum og gjöfum.

Hvað tekur langan tíma fyrir 20-25 tré sem gróðursett eru vegna aksturs tiltekins bíls að bæta upp fyrir mengun bílsins það árið?

Skógar eru afar mikilvægir í kolefnishringrás jarðar, því er ræktun nýrra skóga alþjóðlega viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Annar sameiginlegur þráður með skógum og loftslagsmálum er nauðsyn langtímahugsunar. Þannig benda rannsóknir til að þótt dregið væri úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á þessum áratug þá yrði áhrifanna ekki vart í dvínandi gróðurhúsaáhrifum fyrr en að mörgum áratugum liðnum. Kolviður byggir nú útreikninga sína á því að það taki skóginn að meðaltali 60 ár að binda tilskilið magn af kolefni, sem er í góðu samræmi við aðgerðaáætlun alþjóðasamfélagsins um aðgerðir til að bregðast við vandanum. Í fyrsta loftslagsskógi Kolviðar var reiknaður binditími 90 ár.

Ástæður þess að hægt var að stytta reiknaðan binditíma ræðst af landgæðum og trjátegundavali og því að niðurstöður rannsókna sýna hærri kolefnisbindingu en áður og lengri og fleiri mælingar draga úr tölfræðilegri óvissu. Þau 20 -25 tré sem verða gróðursett vegna umræddrar bifreiðar munu því standa a.m.k. þann tíma og binda kolefni! Kolviður reiknar aðeins þá bindingu sem á sér stað í stofni og grófrótarkerfi trjánna. Umtalsverð binding verður að auki í jarðvegi og skógarbotni (sverði). Auk þess má benda á að, að því gefnu að skógurinn fái að standa eftir að reiknuðum binditíma er lokið, mun hann halda áfram að binda kolefni um ókomna tíð. Í samningum sem Kolviður gerir við landeigendur er kveðið á um að landið skuli áfram vera skógivaxið eftir að binditíma líkur.

Er kolefnisjafnaður bíll orðinn „grænn“?

Ekki er hægt að ganga svo langt að segja að bíll sem hefur verið kolefnisjafnaður í eitt ár sé orðinn „grænn“  þ.e. umhverfisvænn. Bílar eru mengandi farartæki og hafa áhrif á umhverfið á ýmsum stigum lífsferils síns, við framleiðslu þeirra, akstur og við förgun. Framleiðsluferlið hefur mengun í för með sér en framleiðsla ýmissa efna sem notuð eru í bíla (t.d. stál, ýmis plastefni, ál) hefur í för með sér mikla orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda.

Langstærsti hluti umhverfisáhrifanna verða þó vegna aksturs og þar er losun gróðurhúsalofttegunda mikilvægust út frá umhverfissjónarmiði, vegna brennslu jarðefnaeldsneytis. Við bruna eldsneytis losnar m.a. koldíoxíð (CO2) og köfnunarefnissambönd (NOx) sem geta verið heilsuspillandi. Í útblæstri bifreiða er einnig að finna sót og auk þess rífa dekk upp malbik. Allt eykur þetta magn svifryks í andrúmsloftinu sem er heilsuspillandi og hefur slæm áhrif á öndunarfæri og lungu.

Bílaframleiðendur hafa brugðist við með því að framleiða betri bensín- og díselvélar og fullkomnari hreinsibúnað í bíla svo mengun frá þeim minnki. Nokkrar tegundir af visthæfari bílum eru einnig komnar á markað og eru í sífelldri þróun.

Á heimasíðu Kolviðar er að finna „Minnkun útblásturs “ þar sem bent er á leiðir sem einstaklingar geta farið til þess að draga úr losun sinni á koldíoxíði frá samgöngum.

Er kolefnisbinding „leyfi til að menga“?

Nei, alls ekki. Og ekki er um að ræða neins konar „syndayfirbót“ í þeim skilningi að einstaklingar megi í framtíðinni valda loftmengun að vild svo fremi sem þeir greiði fyrir samsvarandi bindingu koldíoxíðs í jarðvegi.

Gerðir okkar mannanna hafa áhrif á umhverfið með margvíslegum hætti og að kolefnisbinda í gegnum Kolvið er ein leið sem einstaklingar og fyrirtæki geta farið til að taka ábyrgð á áhrifum eins hluta daglegs lífs. Kolviður gerir einstaklingum og fyrirtækjum kleift að binda kolefni á móti útblástursáhrifum vegna bifreiðanotkunar og vegna flugferða, og kemur þannig til móts við þá sem vilja bera ábyrgð á áhrifum sínum á umhverfi okkar allra.

Framtíðarsýnin er að vistvænir bílar og síðar jafnvel vistvænar flugvélar muni taka við af þeim flota sem nú er í notkun. Ísland getur fræðilega orðið fyrsta land í heimi til að verða að mestu laust við jarðefnaeldsneyti ef vel tekst til með hönnun vistvænna farartækja. Þangað til er mikilvægt að taka ábyrga afstöðu til losunar koldíoxíðs og binda kolefni á móti eigin útblæstri.

Hnattræn hlýnun sem rakin er til aukins styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti er talin ein mesta umhverfisógn sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Skilvirkasta leiðin til árangurs er að draga úr losun mengandi lofttegunda. Því verður að hvetja hvern og einn til að gera sem mest til að draga úr eigin losun – samfara því að binda það magn koldíoxíðs sem óhjákvæmilega losnar úr læðingi við daglegt líf.
Kolviður hvetur hvern og einn til að hugsa í víðu samhengi um hvernig best er að vernda og varðveita umhverfið, komandi kynslóðum til handa.

Er ekki nær að bjarga regnskógunum og planta trjám þar sem þau vaxa hratt?

– Þar sem lauftré á Íslandi, eins og birki, bera aðeins lauf í fáa mánuði á ári hlýtur kolefnisbinding þeirra að vera minni hér á landi en í mörgum öðrum löndum. Er ekki nær að bjarga regnskógunum og planta trjám þar sem þau vaxa hratt og eru „í vinnu“ allt árið?

Meta verður hvert verkefni fyrir sig með tilliti til væntinga um afkastagetu, áhættu og öryggi jafnt hérlendis sem erlendis. Vaxtageta og binding koldíoxíðs ræðst af mörgum þáttum, ekki bara hitastigi og lengd vaxtartíma. Þar má nefna jarðvegskilyrði, vatnsbúskap, trjátegundir, sjúkdóma, ræktunaraðferðir eða með öðrum orðum summu allra umhverfisþátta. Skógar ræktaðir á Íslandi með blöndu af helstu trjátegundum eru síður en svo eftirbátar skóga sem ræktaðir eru á röskuðum vistkerfum annars staðar í heiminum.

Áætluð meðalbinding Kolviðar er áþekk og reiknað er með í alþjóðasamhengi. En hérlendis sem erlendis má finna dæmi um skóga sem binda margfalt meira. Þannig sýna mælingar að alaskaaspar- og sitkagreniskógar geta bundið að meðaltali 20-30 tonn af CO2/ha/ár sem er fimm til áttfalt meira en reiknuð meðalbinding Kolviðar.

Skipa má Íslandi á bekk eyðimerkurríkja þegar kemur að skógum. Þegar farið var að spyrna við fótum fyrir réttri öld lá nærri að skógareyðing hér væri alger. Skógar og kjarr þekja nú einungis um 1,5% landsins.

Með aðgerðum Kolviðar á Íslandi má ná umtalsverðum árangri. Niðurstöður rannsókna frá Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá og Landbúnaðarháskóla Íslands benda til þess að skógar sem ræktaðir eru á Íslandi þoli vel samanburð við skóga annars staðar hvað kolefnisbindingu varðar. Ísland er landríkt og við landnám er talið að allt að þriðjungur landsins hafi verið skógi vaxinn. Því eru mikil tækifæri til kolefnisbindingar og endurheimt skóga á Íslandi. Þessu til viðbótar má geta þess að binding í jarðvegi og sverði er mjög mikil hér á landi miðað við víða í öðrum löndum.

Mjög víða hér á landi mun binding kolefnis í skógi á sama tíma bæta landgæði, sporna við landrofi og foki, og auðga útivistarmöguleika Íslendinga. Í því samhengi er einkum horft til varnaraðgerða gegn eyðingu regnskóga enda er eyðing þeirra stór þáttur í þeim hnattræna vanda sem gróðurhúsaáhrifin eru. Áður en ráðist verður í beinar aðgerðir á erlendum vettvangi vill Kolviður tryggja sér traustan heimamarkað.

Hefur mikil skógrækt á norðurslóðum öfug áhrif við það sem til er ætlast ?

– Gerð hafa verið reiknilíkön sem benda til þess að mikil skógrækt á norðurslóðum hafi öfug áhrif við það sem til er ætlast og leiði til hækkandi hitastigs jarðar vegna minna endurkasts sólarljóss frá skógum en af skóglausu landi. Hefur þetta áhrif hér á landi?

Í apríl 2007 var birt grein í fræðiritinu PNAS – Proceedings of the National Academy of the United States of America þar sem nokkrir vísindamenn komust m.a. að því með módelsmíði og reiknilíkani að skógrækt á norðurslóðum geti haft þveröfug áhrif á loftslag, þ.e. auki hlýnun fremur en dragi úr henni. Ýmislegt í þessari grein hafa vísindamenn gagnrýnt. Gæta ber varhug við því að taka eina fræðigrein sem algild sannindi enda viðurkenna sömu vísindamenn og skrifa greinina að um mjög flókið ferli sé að ræða og að frekari rannsókna sé þörf.

Hvað varðar íslenskar aðstæður hefur m.a. verið bent á að snjór endurvarpar geislum öfugt við dökka fleti og að snjór getur ekki hulið skóga með sama hætti og móa, tún og engjar. Hér skal hafa í huga að skógrækt á Íslandi er aðeins möguleg á láglendi og rysjótt veðurfar hér veldur því að snjóþekja á láglendi er afar takmörkuð og því áhrif skógræktar á endurskin allt önnur og minni en inni á meginlöndum Norður-Ameríku og Evrasíu. Þar getur land verið snævi þakið í allt að 9 mánuði á ári. Aftur á móti hefur snjór þakið jörð aðeins 13% ársins að meðaltali síðastliðin 10 ár í Reykjavík. Þar að auki eru mestu líkurnar á snjóþekju hér á dimmustu dögum ársins.

Skógræktin hefur tekið saman ágætis pistla um þessi mál, en þessi spurning um endurskinið kemur reglulega upp. Lesa má þessa pistla á heimasíðu Skógræktarinnar:

https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/skograekt-er-mikilvaegur-hluti-af-framlagi-islands-til-loftslagsmala 

og

https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/skogur-vinnur-gegn-loftslagsroskun

Skiptir máli hvort trén eru gróðursett á Íslandi eða annars staðar ?

– Á sumum erlendum vefsíðum virðist vera hægt að kaupa ódýrari kolefnisjöfnun en hjá Kolviði. Með það í huga að ekki skipti höfuðmáli hvort trén eru gróðursett á Íslandi eða annars staðar geta menn ekki sparað peninga eða keypt fleiri tré með því að kaupa kolefnisjöfnun af öðrum?

Ein megin stoð Kolviðar er trúverðugleiki. Ekki skal leika nokkur vafi á því að viðskiptavinir Kolviðar geti treyst því að sú losun sem þeir hafa falið Kolviði að jafna fyrir sína hönd hafi farið fram. Sum af þeim fyrirtækjum sem boðið hafa þjónustu sína um nokkurt skeið erlendis hafa fengið á sig þann róm að þau hafi ekki verið að standa sig að þessu leyti (sbr. ítarlega umfjöllun Financial Times 26. apríl 2007).

Mörg þeirra fást ekki við kolefnisbindingu með skógrækt eins og Kolviður heldur einblína á annars konar verkefni sem meta þarf hverju sinni. Kolviður hefur gert samning við KPMG endurskoðunarfyrirtæki um að votta og árangursvakta starfsemi sína. Það er mikilvægt að hafa þann gagnsæja grunn sem Kolviður hefur á sinni starfsemi.

Markmið Kolviðar er aukin binding kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Starf Kolviðar miðar einnig – og ekki síst – að því að auka vitund almennings og fyrirtækja um losun gróðurhúsalofttegunda, og að breyta viðhorfum til þessara mála.

Kolviður er stofnaður af tveimur elstu skógræktar- og umhverfissamtökum Íslands (Skógræktarfélag Íslands stofnað 1930 og Landvernd stofnað 1969), rótgrónum samtökum sem hafa langa sögu. Kostnaður við kolefnisbindingu hjá Kolviði er ekki hár miðað við marga erlenda sjóði með sambærilega starfsemi. Sjá t.d. Climate+Care og CarbonNeutral.

Ekki virðist einhugur um að loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað séu af mannavöldum?

– Ekki virðist einhugur um að loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað séu af mannavöldum og sumir draga í efa að losun koldíoxíðs (CO2) hafi þar áhrif. Hver hefur rétt fyrir sér?

Loftslagskerfi jarðarinnar er mjög flókið fyrirbæri og fjölmargir umhverfisþættir geta haft áhrif á loftslag. Með auknum rannsóknum næst betri skilningur á þeim ferlum sem eiga sér stað, t.d. á samspili hafstrauma og loftslags. Meginþorri vísindamanna sem fást við loftslagsrannsóknir eru þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar séu vegna athafna mannanna sbr. skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) þar sem fram kemur að 90% líkur séu taldar á því að þær sú af mannavöldum.

Það er ábyrg afstaða að taka mið af niðurstöðum vísindarannsókna og að miða aðgerðir í samræmi við þær. Ef í ljós kemur að einhverjum tíma liðnum að menn hafi haft rangt fyrir sér varðandi orsakir loftslagsbreytinga þá er engu glatað með því að stunda nýskógrækt og bjarga regnskógum. Þvert á móti spornar þessi starfsemi á móti jarðvegseyðingu sem er eitt alvarlegasta umhverfisvandamálið í heiminum í dag og stuðlar að endurheimt glataðra vistkerfa og betra umhverfis. Því græða allir, hvernig sem fer.

Er kolefnisjöfnun eins konar „aflátsbréf“ ?

– Er kolefnisjöfnun eins konar „aflátsbréf“ ? Er ekki nauðsynlegt að kolefnisjöfnun fari saman við alls konar önnur úrræði?

Kolefnisjöfnun á ekkert skylt við aflátsbréf eða syndaaflausn. Kolviður hvetur einstaklinga og fyrirtæki til þess að taka ábyrga afstöðu til losunar gróðurhúsalofttegunda, hver og einn er ábyrgur fyrir sínum útblæstri.

Við endurvinnum í auknum mæli það sem fellur til við neyslu, t.d. pappír, dósir og aðrar umbúðir. Í þessum sama anda vill Kolviður bjóða fólki að binda það kolefni sem fellur til við daglega neyslu. Sjóðurinn hvetur til þess að sem mest sé dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda en gerir sér grein fyrir að erfitt er að koma í veg fyrir hana alveg.

Á heimasíðu Kolviðar geta einstaklingar reiknað út hvað bílar þeirra og flugferðir losa af koldíoxíði, þannig getur hver „tekið til eftir sig“.

Ekki má líta á kolefnisbindingu með skógrækt sem heildarlausn og ljóst er að til þess að sporna við auknum styrk gróðurhúsalofttegunda þarf að grípa til fjölþættra aðgerða. Öll verkefni sem annað hvort draga úr losun eða auka bindingu eru af hinu góða. Á heimasíðu Kolviðar eru fróðleiksmolar, „Vissir þú?“ og „Minnkun útblásturs CO2“ þar sem bent er á nokkrar leiðir sem einstaklingar geta farið til þess að draga úr losun sinni á koldíoxíði frá samgöngum. Þar á meðal eru:

  • Kaupa sér sparneytinn bíl
  • Ganga eða hjóla styttri ferðir
  • Nota almenningssamgöngur eins og hægt er
  • Spara sér ferðir með góðu skipulagi
  • Vanda aksturslag/stunda vistakstur
  • Huga að viðhaldi bifreiðar

Flest okkar geta náð töluverðum árangri til að draga úr losun með ofangreindum og öðrum aðgerðum en það er ómögulegt fyrir okkur að verða alveg kolefnishlutlaus með þessu móti. Til þess að gera það þurfum við að grípa til aðferða sem binda kolefni eins og skógrækt á skóglausu landi gerir. Þar kemur Kolviður til skjalanna og hjálpar til við að loka kolefnishringnum. Skilaboðin eru því þessi: Minnka losun eins og hægt er – binda það sem eftir stendur með skógrækt.

Reiknar Kolviður út losun tengda starfsemi minni?

Nei, því miður. Það eru ýmis fyrirtæki sem bjóða upp á þjónustu með slíka útreikninga, t.d. Klappir Grænar lausnir, Circular Solutions, Efla verkfræðistofa og fleiri.

Á heimasíðu Kolviðar er reiknivél þar sem hægt er að reikna losun kolefnis vegna brennslu jarðefnaeldsneytis og nálgun við losun kolefnis vegna flugs og aksturs. Þar kemur einnig fram kostnaður við kolefnisbindingu og fjöldi trjáa sem þarf að planta til bindingarinnar.

Fyrirtækið mitt er að kolefnisbinda hjá Kolviði. Geta starfsmenn fyrirtækisins sett niður plönturnar sem þarf að gróðursetja í „okkar reit“?

Stutta svarið er nei, því miður. Gróðursetningar Kolviðar þurfa að standast ákveðnar gæðakröfur og eru því gerðar af fólki með þjálfun og reynslu til að tryggja góða lifun á plöntunum þannig að Kolviður geti staðið við þá kolefnisbindingu sem um ræðir. Kolviður þarf á ári hverju talsvert land til plöntunar og stefnt er að því að hafa land til plöntunar í hverjum landsfjórðungi. Stöðugt er unnið í að afla, skipuleggja og vinna ný lönd til plöntunar Kolviðarskóga. Plöntun í hvert svæði skal vera lokið innan fimm ára vegna umsjónar, mælinga og skráninga í gagnagrunna skógargeirans.

Kolviður mun verða með einn loftslagsdag á ári þar sem starfsmönnum fyrirtækja sem eru að binda kolefni í samstarfi við Kolvið býðst að koma og fræðast um gróðursetningu og bindingu kolefnis með trjám auk þess að gróðursetja trjáplöntur. Kynnt verður hverju sinni um dagsetningu og staðsetningu þar sem þægilegt er að komast að.