Skip to main content
Monthly Archives

september 2020

Frádráttur vegna kolefnisjöfnunar

Eftir Fréttir

Samkvæmt breytingu á lögum um tekjuskatt, sem samþykkt var nú í sumar, mega lögaðilar draga framlög til kolefnisjöfnunar (allt að 0,85% af árstekjum) frá tekjum og á þetta við um aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslu og endurheimtar votlendis. Lögin taka gildi 1. janúar 2021 og koma til framkvæmda fyrir tekjuárið 2020.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alþingis – https://www.althingi.is/altext/150/s/0027.html

 

Milljónasta tréð á vegum Kolviðar gróðursett

Eftir Fréttir

Kolviður náði þriðjudaginn 8. september þeim merka áfanga að gróðursetja milljónasta tréð á vegum sjóðsins og var það gróðursett á Úlfljótsvatni. Fyrir valinu varð hin myndarlegasta lindifura. Mættu fulltrúar úr stjórn Kolviðar til leiks ásamt því starfsfólki sem unnið hefur að gróðursetningu Kolviðarplantna nú í ár. Settu tvær ungar konur úr gróðursetningahópi Kolviðar niður milljónustu plöntuna, enda vant fólk á ferðinni!

Kolviður er sjóður með það markmið að auka bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu og vega þannig á móti áhrifum loftslagsbreytinga.

Á annað hundrað fyrirtæki og um eitt þúsund einstaklingar hafa falið Kolviði að kolefnisbinda losun sína á kolefni og greitt þann kostnað. Gróðursetning á þessu ári er á Úlfljótsvatni, Geitasandi og við Húsavík. Stefnt er að því að gróðursetning geti farið fram sem víðast á landinu.

Sjóðurinn var stofnaður af Skógræktarfélagi Íslands og Landvernd og hóf starfsemi 2007, en þá voru fyrstu plönturnar á vegum sjóðsins gróðursettar, í Geitasandi á Rangárvöllum. Sjóðurinn fór vel af stað, en nokkuð dró úr áhuga á kolefnisbindingu og þar með umfangi gróðursetninga eftir bankahrunið 2008. Eftir Parísarsamkomulagið 2015 komu loftslagsmálin aftur meira inn í umræðuna og jókst áhugi á kolefnisbindingu mikið í kjölfarið. Mikil aukning hefur því verið í fjölda gróðursettra plantna undanfarin fimm ár.

Þrátt fyrir Covid faraldurinn halda fyrirtæki og einstaklingar áfram að binda kolefnislosun sína enda er faraldurinn skammtímaástand en loftslagsmálin langtíma úrlausnarefni.


Gróðursetningahópur Kolviðar, ásamt fulltrúum úr stjórn sjóðsins og starfsfólki, að gróðursetningu lokinni. Mynd: Elisabeth Bernard


Milljónasta plantan – státleg lindifura. Mynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir