Ársfundur Kolviðar var haldinn á fyrsta degi þorra og var vel sóttur. Um var að ræða hádegisfund og var boðið upp á ljúffenga grænmetissúpu og brauð frá Sölufélagi garðyrkjumanna.
Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, rakti rekstrartölur Kolviðar frá upphafi. Umtalsverð aukning hefur orðið í sölu kolefnisbindingar og þá sérstaklega síðast liðin þrjú ár. Unnið hefur verið að stefnumótun fyrir sjóðinn og tókst að ljúka henni fyrir áramót. Í kjölfarið var ákveðið að endurnýja vefsíðu Kolviðar.
Einar Gunnarsson, stjórnarmaður Kolviðar, greindi frá skógræktarverkefnum sjóðsins.
Dr. Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, fjallaði um rannsóknir sínar og annarra á kolefnisbindingu í trjám og gróðri. Að lokum fjölluðu Björn Traustason, sérfræðingur á Rannsóknarstöð Skógræktarinnar á Mógilsá, og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um hugmyndir að loftslagsskógi á Mosfellsheiði. Auk þess að binda kolefni myndi slíkur skógur skýla byggð á höfuðborgarsvæðinu fyrir tíðum austanáttum og verða útivistarskógur líkt og Heiðmörkin.
Fundargestir gerðu góðan róm að því sem bar á góma og horfa björtum augum til framtíðar.
Erindi Reynis Kristinssonar (pdf)
Erindi Einars Gunnarssonar (pdf)
Nýlegar athugasemdir