Skip to main content
Monthly Archives

febrúar 2022

Samningur um kolefnisbindingu

Eftir Fréttir

Þriðjudaginn 8. febrúar 2022 var undirritaður þríhliða samningur milli HS Veitna, Kolviðar og Lionsklúbbs Keflavíkur varðandi kolefnisbindingu á móti útblásturs CO2 frá bifreiðum HS Veitna.
Reiknaður útblástur CO2 frá bifreiðum fyrirtækisins nam 141,7 tonnum árið 2021. Lionsklúbbur Keflavíkur í samstarfi við Kolvið mun gróðursetja plöntur og halda utan um kolefnisbindingu fyrirtækisins.

Við þetta tækifæri sagði Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna: „Það er stefna fyrirtækisins að ganga vel um í hvívetna. Liður í því er að minnka kolefnisspor fyrirtækisins eins og hægt er. Fyrirtækið er á góðri leið með að skipta yfir í umhverfisvænni orkugjafa í bílaflota fyrirtækisins og er stefnan að ná því takmarki á allra næstu árum eftir því hvernig þróun rafbíla af öllum gerðum gengur. Þangað til gróðursetjum við tré til mótvægis“.

Við þetta tækifæri sagði Reynir Kristinsson frá Kolvið: „Þetta þríhliða samstarf í loftslagsmálum er einkar skemmtilegt þar sem Lionsklúbbur Keflavíkur hafði frumkvæðið að því að koma á tengslum milli Kolviðar og HS Veitna með það að markmiði að binda losun útblásturs bifreiða HS Veitna. Kolviður mun á þessu ári planta 1.420 trjáplöntum sem fá það hlutverk að binda þessa losun. Kolviður vinnur nú að því að fá alþjóðlega ISO vottun á starfsemi sinni á þessu ári.“

Við þetta tækifæri sagði Rafn Benediktsson formaður Lionsklúbbs Keflavíkur: „Lionsklúbbur Keflavíkur er sérstaklega stoltur af því að hafa hvatt HS Veitur til samfélagslegrar ábyrgðar með bindingu kolefnislosunar sinnar í samvinnu við Kolvið. Þessi merkilega samningur er í anda eins af fimm átaksverkefna Lions International og gerir hann okkur ekki eingöngu kleift að halda áfram áralangri trjáræktarsögu okkar heldur einnig að styðja áfram góð málefni á svæðinu.“


Glaðbeittir við undirritun: Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna, Reynir Kristinsson Kolviði og Rafn Benediktsson formaður Lionsklúbbs Keflavíkur.