Skip to main content

Samningur við Hópbíla undirritaður

Eftir nóvember 9, 2019nóvember 15th, 2019Fréttir

Hópbílar í Hafnarfirði hafa samið við Kolvið um að kolefnisjafna rútuakstur félagsins ásamt vinnutengdum flugferðum starfsmanna frá og með árinu 2020.

Þetta mun vera stærsti samningur sem Kolviður hefur gert við íslenskt fyrirtæki til þessa en áætlanir gera ráð fyrir að gróðursett verði um 18.600 tré árlega á rúmlega 7 hektara lands.

Pálmar Sigurðsson, skrifstofu- og umhverfisstjóri félagsins var mjög ánægður að lokinni undirskrift. „Við erum mjög meðvituð um umhverfisáhrif starfseminnar og það er einlæg stefna okkar að lágmarka þau áhrif og bæta stöðugt árangur í umhverfismálum. Við höfum ætíð gert umhverfisvernd hátt undir höfði í starfsemi okkar samanber það að árið 2003 vorum við með fyrstu fyrirtækjum landsins til að innleiða umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001. Við erum því mjög stolt að vera einnig leiðandi í að stíga það stóra skref að kolefnisjafna akstur rútuflotans, fyrstir rútufyrirtækja“ .

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs sagði mjög mikilvægt að fá fyrirtæki eins og Hópbíla í lið með Kolviði. „Við hjá Kolviði fögnum mjög þessu skrefi sem Hópbílar eru að taka í dag. Það er afar mikilvægt að stór fyrirtæki í svona rekstri sýni í verki samfélagslega ábyrgð og taki þátt í að vinna gegn þeirri vá sem losun gróðurhúsalofttegunda er. Við hlökkum mjög til þessa samstarfs við Hópbíla“.

Hópbílar hafa samhliða þessum samningi innleitt hjá sér rekstrarkerfi frá Klöppum grænum lausnum hf. sem kortleggur og safnar saman í grænt bókhald heildarnotkun félagsins á olíu, úrgangi, rafmagni og heitu og köldu vatni og reiknar út CO2 losun vegna þeirra þátta. Það kemur til með að gagnast félaginu mjög vel við að ná betri árangri í umhverfismálum.