Skip to main content
All Posts By

Ragnhildur

Samningur undirritaður við Bifreiðaverkstæði Kópavogs

Eftir Fréttir

Kolviður undirritaði nú í lok nóvember samning við Bifreiðaverkstæði Kópavogs um kolefnisbindingu á móti losun frá starfsemi verkstæðisins. Er samningurinn hluti af umhverfisstefnu fyrirtækisins, en það vinnur samkvæmt ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum.

Allir ánægðir að undirskrift lokinni. Linda Reynisdóttir og Auðunn Ásberg Gunnarsson frá Bifreiðaverkstæði Kópavogs og Reynir Kristinsson (f. miðju), stjórnarformaður Kolviðar.

Nýr samningur við Höldur – Bílaleigu Akureyrar undirritaður

Eftir Fréttir

Kolviður undirritaði nýlega samning við Höldur – Bílaleigu Akureyrar, en markmið hans er að gefa viðskiptavinum Hölds tækifæri til að binda kolefni á móti þeirri losun sem til fellur vegna aksturs þeirra. Viðskiptavinir Hölds geta nú við bókun á leigu valið kolefnisbindingu í bókunarferlinu.

Skrifuðu Jón Gestur Ólafsson, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Hölds og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, undir samninginn.

Ársfundur Kolviðar 2021

Eftir Fréttir

Ársfundur Kolviðar 2021 verður haldinn þriðjudaginn 12. október kl. 11-13 í sal Garðyrkjufélags Íslands (Síðumúla 1, gengið inn Ármúlamegin).  Allir áhugasamir velkomnir – vinsamlegast tilkynna mætingu fyrir hádegi mánudaginn 11. október.

Dagskrá:

Kolviður – skýrsla stjórnar
 Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðar

Klappir: Útreikningar losunar og binding í samstarfi við Kolvið
Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Klappir Grænar lausnir

Kvistabær: Plöntuframleiðsla – möguleikar
María E. Ingvadóttir, Kvistabæ

Skógræktin: Skógarkolefni, kolefnisreiknir og vottun
Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri, Skógræktin

Kolviður 15 ára

Hádegishressing

Fundarstjóri: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands

 

Bilun í greiðslugátt á vefsíðu

Eftir Fréttir

Greiðslugátt og vefverslunarkarfa hér á vefnum virka ekki eins og stendur (12.08.2021). Búið er að hafa samband við vefþjónustufyrirtæki og er verið að vinna í að finna bilunina og vonumst við til að þetta komist fljótt í lag. Ef þið viljið kaupa kolefnisbindingu þá vinsamlegast reynið aftur síðar eða notið millifærslu (Bankaupplýsingar – Banki 0301  26  8228 – Kennitala 560606  1170).

Kolviður í samstarf við Lionsklúbb Keflavíkur og Skógræktarfélag Suðurnesja

Eftir Fréttir

Kolviður hefur undirritað samstarfssamning við Lionsklúbb Keflavíkur og Skógræktarfélag Suðurnesja. Samstarfið lýtur að því að Lionsklúbbur Keflavíkur mun hvetja fyrirtæki og einstaklinga á Suðurnesjum til úrbóta í loftslagsmálum með því að kolefnisbinda hjá Kolviði og mun Lionsklúbburinn fá hlutfall af þeim viðskiptum sem til koma vegna hvatningar þeirra. Mun Lionsklúbburinn svo nýta hluta þeirrar upphæðar sem í þeirra hlut kemur til að styðja Skógræktarfélag Suðurnesja til ræktunar á yndisskógi við Seltjörn.

Boðið verður upp á þann möguleika á heimasíðu Kolviðar að merkja kaup á kolefnisbindingu Lionsklúbbnum og er sá möguleiki í vinnslu.

Frá undirritun samningsins: Rafn Benediktsson (sitjandi t.v.) frá Lionsklúbbi Keflavíkur og Berglind Ásgeirsdóttir (sitjandi t.h.) frá Skógræktarfélagi Suðurnesja setja nöfn sín á samninginn, ásamt Reyni Kristinssyni, formanni Kolviðar (lengst til hægri). Mynd: BJ

Gleðileg jól!

Eftir Óflokkað

Kolviður óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Við þökkum samstarfsaðilum og öllum þeim sem bundu kolefni hjá okkur á liðnu ári kærlega fyrir stuðninginn – ykkar framlag hjálpar til við að græða land skógi á ný!

Gjafabréf Kolviðar

Eftir Fréttir

Það kannast örugglega margir við þann vanda að kaupa jólagjöf handa einhverjum sem „á allt“. Einnig vilja sífellt fleiri draga úr neyslu og kaupa minni óþarfa, sem safnast svo bara upp á heimilum. Fyrir fólk í þessum sporum viljum við benda á jólagjafamöguleika: gjafabréf Kolviðar.

Fyrir 2.200 kr. má gefa fólki kolefnisbindingu upp á 1 tonn CO2, með gróðursetningu. Auk þess að binda kolefni hefur trjágróður/skógur auðvitað mörg önnur jákvæð umhverfisáhrif, svo sem að skapa skjól, miðla vatni og vinna gegn jarðvegseyðingu. Með því að gefa kolefnisbindingu hjá Kolviði hjálpar þú til við að græða land skógi á ný!

Gjafabréfið má kaupa með því að smella á rauða hnappinn á forsíðunni eða smella hér!

Seinna tölublað Skógræktarritsins 2020 er komið út

Eftir Fréttir

Að venju er að finna í ritinu áhugaverðar greina um hinar fjölbreyttu hliðar skógræktar. Að þessu sinni má meðal annars finna greinar um Tré ársins 2020, útikennslu, áhrif furulúsar á lifun og vöxt skógarfuru á Íslandi, tálgun, blandskógrækt, stofnun Heiðmerkur, skógartölur ársins 2019 og útbreiðslu og áhrif ertuyglu á ungskóga.

Kápu ritsins prýðir myndin „Alien Hourgarden“ eftir Kristinn Má Pálmason.

Frádráttur vegna kolefnisjöfnunar

Eftir Fréttir

Samkvæmt breytingu á lögum um tekjuskatt, sem samþykkt var nú í sumar, mega lögaðilar draga framlög til kolefnisjöfnunar (allt að 0,85% af árstekjum) frá tekjum og á þetta við um aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslu og endurheimtar votlendis. Lögin taka gildi 1. janúar 2021 og koma til framkvæmda fyrir tekjuárið 2020.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alþingis – https://www.althingi.is/altext/150/s/0027.html

 

Milljónasta tréð á vegum Kolviðar gróðursett

Eftir Fréttir

Kolviður náði þriðjudaginn 8. september þeim merka áfanga að gróðursetja milljónasta tréð á vegum sjóðsins og var það gróðursett á Úlfljótsvatni. Fyrir valinu varð hin myndarlegasta lindifura. Mættu fulltrúar úr stjórn Kolviðar til leiks ásamt því starfsfólki sem unnið hefur að gróðursetningu Kolviðarplantna nú í ár. Settu tvær ungar konur úr gróðursetningahópi Kolviðar niður milljónustu plöntuna, enda vant fólk á ferðinni!

Kolviður er sjóður með það markmið að auka bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu og vega þannig á móti áhrifum loftslagsbreytinga.

Á annað hundrað fyrirtæki og um eitt þúsund einstaklingar hafa falið Kolviði að kolefnisbinda losun sína á kolefni og greitt þann kostnað. Gróðursetning á þessu ári er á Úlfljótsvatni, Geitasandi og við Húsavík. Stefnt er að því að gróðursetning geti farið fram sem víðast á landinu.

Sjóðurinn var stofnaður af Skógræktarfélagi Íslands og Landvernd og hóf starfsemi 2007, en þá voru fyrstu plönturnar á vegum sjóðsins gróðursettar, í Geitasandi á Rangárvöllum. Sjóðurinn fór vel af stað, en nokkuð dró úr áhuga á kolefnisbindingu og þar með umfangi gróðursetninga eftir bankahrunið 2008. Eftir Parísarsamkomulagið 2015 komu loftslagsmálin aftur meira inn í umræðuna og jókst áhugi á kolefnisbindingu mikið í kjölfarið. Mikil aukning hefur því verið í fjölda gróðursettra plantna undanfarin fimm ár.

Þrátt fyrir Covid faraldurinn halda fyrirtæki og einstaklingar áfram að binda kolefnislosun sína enda er faraldurinn skammtímaástand en loftslagsmálin langtíma úrlausnarefni.


Gróðursetningahópur Kolviðar, ásamt fulltrúum úr stjórn sjóðsins og starfsfólki, að gróðursetningu lokinni. Mynd: Elisabeth Bernard


Milljónasta plantan – státleg lindifura. Mynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir