Skip to main content
All Posts By

Ragnhildur

Seinna tölublað Skógræktarritsins 2020 er komið út

Eftir Fréttir

Að venju er að finna í ritinu áhugaverðar greina um hinar fjölbreyttu hliðar skógræktar. Að þessu sinni má meðal annars finna greinar um Tré ársins 2020, útikennslu, áhrif furulúsar á lifun og vöxt skógarfuru á Íslandi, tálgun, blandskógrækt, stofnun Heiðmerkur, skógartölur ársins 2019 og útbreiðslu og áhrif ertuyglu á ungskóga.

Kápu ritsins prýðir myndin „Alien Hourgarden“ eftir Kristinn Má Pálmason.

Frádráttur vegna kolefnisjöfnunar

Eftir Fréttir

Samkvæmt breytingu á lögum um tekjuskatt, sem samþykkt var nú í sumar, mega lögaðilar draga framlög til kolefnisjöfnunar (allt að 0,85% af árstekjum) frá tekjum og á þetta við um aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslu og endurheimtar votlendis. Lögin taka gildi 1. janúar 2021 og koma til framkvæmda fyrir tekjuárið 2020.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alþingis – https://www.althingi.is/altext/150/s/0027.html

 

Milljónasta tréð á vegum Kolviðar gróðursett

Eftir Fréttir

Kolviður náði þriðjudaginn 8. september þeim merka áfanga að gróðursetja milljónasta tréð á vegum sjóðsins og var það gróðursett á Úlfljótsvatni. Fyrir valinu varð hin myndarlegasta lindifura. Mættu fulltrúar úr stjórn Kolviðar til leiks ásamt því starfsfólki sem unnið hefur að gróðursetningu Kolviðarplantna nú í ár. Settu tvær ungar konur úr gróðursetningahópi Kolviðar niður milljónustu plöntuna, enda vant fólk á ferðinni!

Kolviður er sjóður með það markmið að auka bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu og vega þannig á móti áhrifum loftslagsbreytinga.

Á annað hundrað fyrirtæki og um eitt þúsund einstaklingar hafa falið Kolviði að kolefnisbinda losun sína á kolefni og greitt þann kostnað. Gróðursetning á þessu ári er á Úlfljótsvatni, Geitasandi og við Húsavík. Stefnt er að því að gróðursetning geti farið fram sem víðast á landinu.

Sjóðurinn var stofnaður af Skógræktarfélagi Íslands og Landvernd og hóf starfsemi 2007, en þá voru fyrstu plönturnar á vegum sjóðsins gróðursettar, í Geitasandi á Rangárvöllum. Sjóðurinn fór vel af stað, en nokkuð dró úr áhuga á kolefnisbindingu og þar með umfangi gróðursetninga eftir bankahrunið 2008. Eftir Parísarsamkomulagið 2015 komu loftslagsmálin aftur meira inn í umræðuna og jókst áhugi á kolefnisbindingu mikið í kjölfarið. Mikil aukning hefur því verið í fjölda gróðursettra plantna undanfarin fimm ár.

Þrátt fyrir Covid faraldurinn halda fyrirtæki og einstaklingar áfram að binda kolefnislosun sína enda er faraldurinn skammtímaástand en loftslagsmálin langtíma úrlausnarefni.


Gróðursetningahópur Kolviðar, ásamt fulltrúum úr stjórn sjóðsins og starfsfólki, að gróðursetningu lokinni. Mynd: Elisabeth Bernard


Milljónasta plantan – státleg lindifura. Mynd: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Fréttaskot – apríl

Eftir Fréttir

Kolviður fær reglulega spurningu um hvar plönturnar sem sjóðurinn gróðursetur fari niður. Hingað til hefur verið gróðursett á tveimur stöðum – Geitasandi á Rangárvöllum og Úlfljótsvatni – og nú í sumar er fyrirhugað að bæta í hópinn tveimur svæðum, í Reykholti í Borgarfirði og við Húsavík.

Ársfundur Kolviðar hefur vanalega verið haldinn að vorlagi. Þar sem enn ríkir töluverð óvissa um samkomur í þjóðfélaginu var ákveðið að slá fundinum á frest fram á haust og er nú stefnt að því að halda fundinn þann 26. ágúst.

Ýmis fyrirtæki í samstarfi við Kolvið (og reyndar fleiri aðilar!) hafa forvitnast um möguleika á því að fá að taka þátt í gróðursetningu. Kolviður er nú með í undirbúningi að bjóða samstarfsaðilum upp á loftslagsdag, þar sem þetta væri í boði og er stefnt að því að halda hann laugardaginn 29. ágúst. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag koma síðar.

Samningur við Hópbíla undirritaður

Eftir Fréttir

Hópbílar í Hafnarfirði hafa samið við Kolvið um að kolefnisjafna rútuakstur félagsins ásamt vinnutengdum flugferðum starfsmanna frá og með árinu 2020.

Þetta mun vera stærsti samningur sem Kolviður hefur gert við íslenskt fyrirtæki til þessa en áætlanir gera ráð fyrir að gróðursett verði um 18.600 tré árlega á rúmlega 7 hektara lands.

Pálmar Sigurðsson, skrifstofu- og umhverfisstjóri félagsins var mjög ánægður að lokinni undirskrift. „Við erum mjög meðvituð um umhverfisáhrif starfseminnar og það er einlæg stefna okkar að lágmarka þau áhrif og bæta stöðugt árangur í umhverfismálum. Við höfum ætíð gert umhverfisvernd hátt undir höfði í starfsemi okkar samanber það að árið 2003 vorum við með fyrstu fyrirtækjum landsins til að innleiða umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001. Við erum því mjög stolt að vera einnig leiðandi í að stíga það stóra skref að kolefnisjafna akstur rútuflotans, fyrstir rútufyrirtækja“ .

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs sagði mjög mikilvægt að fá fyrirtæki eins og Hópbíla í lið með Kolviði. „Við hjá Kolviði fögnum mjög þessu skrefi sem Hópbílar eru að taka í dag. Það er afar mikilvægt að stór fyrirtæki í svona rekstri sýni í verki samfélagslega ábyrgð og taki þátt í að vinna gegn þeirri vá sem losun gróðurhúsalofttegunda er. Við hlökkum mjög til þessa samstarfs við Hópbíla“.

Hópbílar hafa samhliða þessum samningi innleitt hjá sér rekstrarkerfi frá Klöppum grænum lausnum hf. sem kortleggur og safnar saman í grænt bókhald heildarnotkun félagsins á olíu, úrgangi, rafmagni og heitu og köldu vatni og reiknar út CO2 losun vegna þeirra þátta. Það kemur til með að gagnast félaginu mjög vel við að ná betri árangri í umhverfismálum.

Samningur við Festi undirritaður

Eftir Fréttir

Eign­ar­halds­fé­lagið Festi hf. og dótt­ur­fé­lög­in N1, Krón­an, Bakk­ans og ELKO skrifuðu nýlega und­ir samn­ing við Kolvið sem fel­ur í sér að út­reiknuð los­un gróður­húsaloft­teg­unda vegna beinna áhrifa frá rekstri Fest­ar og dótt­ur­fyr­ir­tækj­anna verður kol­efnis­jöfnuð.

Samn­ing­ur­inn gild­ir fyr­ir tíma­bilið 2018 til 2019.

Rúm­lega 5.000 tré koma til með að verða gróður­sett til að fram­kvæma kol­efn­is­bind­ing­una, en það jafn­gild­ir um tveimur hekturum af skóg­lendi ár­lega á þeim svæðum sem Kolviður hef­ur umsjón með.

Hafa fyr­ir­tæki inn­an Fest­ar áður stigið álíka græn skref. Fyr­ir þetta verk­efni var inn­leidd hugbúnaðarlausn frá Klöpp­um græn­um lausn­um hf. til að kort­leggja og reikna út los­un gróðurhúsaloft­teg­unda frá starf­semi fyr­ir­tækj­anna.

Eggert Þór Kristó­fers­son, for­stjóra Fest­ar og Reynir Krist­ins­son, stjórn­ar­formaður Kolviðs, við undirritun samningsins.

Bónus gerir samning við Kolvið

Eftir Fréttir

Bónus hefur nú kolefnisjafnað rekstur verslana sinna fyrir árið 2018, en Bónus og Kolviður undirrituðu samning þess efnis þann 21. maí.

Í samstarfi við fyrirtækið Klappir Grænar Lausnir hf. var kolefnisspor verslana Bónus um land allt, árið 2018, reiknar, en umhverfisstjórnunarhugbúnaður Klappa hefur nú verið innleiddur í verklag Bónus, sem mun hjálpa fyrirtækinu að ná enn betri árangri í umhverfismálum. Samkvæmt útreikningum var losun Bónsu árið 2018 667 tonn CO2 og verða 6.670 tré gróðursett til að jafna það út, sem mun í framtíðinni mynda um 2 hektara skóg.

Tímamótasamningur undirritaður milli Icelandair Cargo og Kolviðar

Eftir Fréttir

Icelandair CargoÁ ársfundi Kolviðar, sem haldinn var í Hannesarholti 16. október, var undirritaður samstarfssamningur Kolviðar við Icelandair Cargo. Samningurinn gengur út á að Icelandair Cargo býður viðskiptavinum sýnum að kolefnisjafna þá losun sem hlýst af fraktflugi með viðkomandi vöru. Eftir nákvæma útreikninga á losun á CO2 vegna  flutninga á varningi á öllum áætlunarleiðum Flugleiða auk fraktflugs með Icelandair Cargo varð til gjaldskrá fyrir kolefnisjafnaða flugfrakt. Icelandair Cargo mun sjá um kynningu og samninga við viðskiptavini og innheimta gjöld samkvæmt áðurnefndri gjaldskrá og standa skil á þeim til Kolviðar með uppgjöri tvisvar á ári. Aðilar þessa samnings hafa unnið að þessu í nokkurn tíma og hafa fundið fyrir vaxandi áhuga og þrýstingi frá viðskiptavinum um að bjóða upp á kolefnisjafnað fraktflug.

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar og Mikael Tal Grétarsson, stjórnandi útflutningssviðs Icelandair Cargo, við undirritun í Hljóðbergi, Hannesarholti.