Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar (t.v.) og Jón Ásgeir Jónsson taka við formlegri staðfestingu frá Charlotte Thy hjá Bureau Veritas.
Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar (t.v.) og Jón Ásgeir Jónsson taka við formlegri staðfestingu frá Charlotte Thy hjá Bureau Veritas.
Fagráðstefna skógræktar 2024 verður haldin í Hofi á Akureyri dagana 20.-21. mars og er þema hennar að þessu sinni Skógarauðlindin – innviðir og skipulag. Ráðstefnan er haldin í samstarfi Lands og skógar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Fyrri dagur Fagráðstefnu er að jafnaði helgaður því þemanu hverju sinni, en seinni daginn verða erindi um ýmis efni sem varða skóga og skógrækt og eru ekki bundin við þema ráðstefnunnar.
Skráningafrestur er til 12. mars. Skráningareyðublað og dagskrá má finna hér: https://island.is/frett/skraning-a-fagradstefnu-skograektar-hafin.
Fagráðstefna skógræktar er eins og heitið gefur til kynna vettvangur þekkingarmiðlunar og umræðu í skógargeiranum. Ráðstefnan hefur verið haldin í rúma tvo áratugi og hleypur til milli landshluta frá ári til árs.
Í ljósi fréttar sem birtist á Vísi undir fyrirsögninni „Tekist á um gróðursetningu trjáa“ viljum við koma eftirfarandi á framfæri:
Kolviður býður upp á kolefnisbindingu með skógrækt en ekki kolefnisjöfnun. Kolefnisbinding Kolviðar með skógrækt er unnin samkvæmt alþjóðlegum ISO-14064 staðli og í samræmi við Evróputilskipanir.
Myndin sem fylgir fréttinni og gefið er í skyn að sýni gróðursetningu á vegum Kolviðar er ekki af ræktunarsvæði á vegum Kolviðar. Í vottunarferli Kolviðar samkvæmt ISO-14064 staðlinum er reiknuð öll losun sem verður við framkvæmd skógræktar.
Landval Kolviðar mótast af ýmsum þáttum – vilja landeiganda til samstarfs, hentugleika lands til skógræktar, aðgengi, beitarmálum, landslagsgerðum o.s.frv. Allar gróðursetningar Kolviðar eru byggðar á skógræktaráætlun og háðar framkvæmdaleyfi frá skipulagsyfirvöldum sveitarfélaga, þar sem iðulega er kallað eftir umsögnum stofnana sem með náttúru- og minjavernd fara.
Kolviður hefur frá stofnun árið 2006 reynt að vinna af heilindum og á grundvelli besta vinnulags hvers tíma.
Kolviður er íslenskur óhagnaðardrifinn sjóður þar sem allar tekjur fara til skógræktar.
Kolviður undirritaði nýlega samning við Tjarnarbíó sem gefur gestum leikhússins kost á að binda kolefni á móti losun tengdri ferðum í leikhúsið. Viðskiptavinir Tjarnarbíós geta nú við bókun miða á viðburði þess á tix.is valið að greiða 150 krónum meira og rennur sá peningur til Kolviðar, til gróðursetningar trjáa.
Sindri Már Hannesson frá tix.is, Sara Martí Guðmundsdóttir, leikhússtjóri Tjarnarbíós og Reynir Kristinsson, formaður Kolviðar, við undirritun samningsins.
Framvinduskýrsla Kolviðar fyrir árið 2022 hefur nú verið tekin saman. Í henni eru helstu upplýsingar um verkefni sjóðsins og væntanlega vottun verkefna. Skýrsluna má lesa hér (pdf).
Stefnir hefur frá árinu 2020 verið með samning við Kolvið um að binda kolefni á móti þeirri losun sem til kemur vegna rekstrar félagsins. Við stofnun sjóðsins Stefnis – Grænavals ákvað Stefnir að gróðursetja 10 tré fyrir hvern aðila sem fjárfestir í sjóðnum frá stofnun hans 2021 til loka árs 2022.
Nú í október var þeim áfanga náð að nálgast 5 þúsundasta tréð og og af því tilefni hittust Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar og Dýri Kristjánsson, sjóðstjóri Stefnis – Grænavals, og tóku fyrstu skref í því að binda kolefni á móti losun, en alls binda 5000 tré um 500 tonn af koldíoxíði.
Kolviður undirritaði nýlega samning við fasteignaþróunarfélagið Festir, en markmið hans er að binda kolefni – CO2 – sem til fellur vegna uppbyggingar Festis á Héðinsreitnum í Vesturbæ Reykjavíkur. Uppbygging Festis telur um 210 íbúðir, auk atvinnurýma og bílakjallara. Festir lét gera lífsferilsgreiningu fyrir svæðið, þ.e. meta umhverfisáhrif af byggingarframkvæmdinni auk búsetu, alls yfir 60 ára tímabil.
Mun Kolviður gróðursetja tré til að vega upp á móti útreiknaðri losun.
Reynir Kristinsson, formaður stjórnar Kolviðar
„Þetta er með stærri samningum sem Kolviður hefur gert og er Kolviður sérlega ánægður með þá ábyrgð sem Festir sýnir með þessu, en rannsóknir sýna að töluverður hluti kolefnislosunar á heimsvísu kemur frá byggingariðnaði“.
Róbert Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis
„Ljóst er að við uppbyggingu fasteigna losnar mikið af kolefni út í andrúmsloftið. Með þessum samningi stígur Festir stórt skref með því að kolefnisjafna bæði framkvæmdina sjálfa og áætlaða losun á líftíma bygginganna. Verkefnið á Héðinsreit verður byggt í áföngum á næstu 3-4 árum en samningurinn við Kolvið gerir ráð fyrir að gróðursetning trjáa fyrir alla uppbygginguna og losun á líftíma bygginganna fari öll fram á þessu sumri.
Samninginn undirrituðu Reynir Kristinsson, formaður stjórnar Kolviðar og Róbert Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis.
F.v. Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar og Róbert Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis.
Þriðjudaginn 8. febrúar 2022 var undirritaður þríhliða samningur milli HS Veitna, Kolviðar og Lionsklúbbs Keflavíkur varðandi kolefnisbindingu á móti útblásturs CO2 frá bifreiðum HS Veitna.
Reiknaður útblástur CO2 frá bifreiðum fyrirtækisins nam 141,7 tonnum árið 2021. Lionsklúbbur Keflavíkur í samstarfi við Kolvið mun gróðursetja plöntur og halda utan um kolefnisbindingu fyrirtækisins.
Við þetta tækifæri sagði Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna: „Það er stefna fyrirtækisins að ganga vel um í hvívetna. Liður í því er að minnka kolefnisspor fyrirtækisins eins og hægt er. Fyrirtækið er á góðri leið með að skipta yfir í umhverfisvænni orkugjafa í bílaflota fyrirtækisins og er stefnan að ná því takmarki á allra næstu árum eftir því hvernig þróun rafbíla af öllum gerðum gengur. Þangað til gróðursetjum við tré til mótvægis“.
Við þetta tækifæri sagði Reynir Kristinsson frá Kolvið: „Þetta þríhliða samstarf í loftslagsmálum er einkar skemmtilegt þar sem Lionsklúbbur Keflavíkur hafði frumkvæðið að því að koma á tengslum milli Kolviðar og HS Veitna með það að markmiði að binda losun útblásturs bifreiða HS Veitna. Kolviður mun á þessu ári planta 1.420 trjáplöntum sem fá það hlutverk að binda þessa losun. Kolviður vinnur nú að því að fá alþjóðlega ISO vottun á starfsemi sinni á þessu ári.“
Við þetta tækifæri sagði Rafn Benediktsson formaður Lionsklúbbs Keflavíkur: „Lionsklúbbur Keflavíkur er sérstaklega stoltur af því að hafa hvatt HS Veitur til samfélagslegrar ábyrgðar með bindingu kolefnislosunar sinnar í samvinnu við Kolvið. Þessi merkilega samningur er í anda eins af fimm átaksverkefna Lions International og gerir hann okkur ekki eingöngu kleift að halda áfram áralangri trjáræktarsögu okkar heldur einnig að styðja áfram góð málefni á svæðinu.“
Glaðbeittir við undirritun: Júlíus Jónsson forstjóri HS Veitna, Reynir Kristinsson Kolviði og Rafn Benediktsson formaður Lionsklúbbs Keflavíkur.
Nýlegar athugasemdir