Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Kolefnisjöfnuðum fyrirtækjum fjölgar

Eftir Fréttir

Nýverið bættust nokkur fyrirtæki í hóp þeirra sem kolefnisjafna hluta starfsemi sinnar í gegnum Kolvið og eru það fyrirtækin Bergs, sem flytur út ferskan fisk, Efla verkfræðistofa, Landsnet, Neyðarlínan, Nordic Green travel og Vodafone. Greinilegt er að vaxandi skilningur er á nauðsyn þess að taka ábyrgð á eigin losun gróðurhúsalofttegunda með mótvægisaðgerðum. Að beina sjónum að kolefnisbókhaldi leiðir einnig til aðgerða til að draga úr losun, t.d. með því að kaupa vistvænni bíla,  og hvetja starfsfólk til vistvænni ferðamáta. Þá hafa Valitor og Vodafone boðið starfsmönnum að kolefnisjafna einkabifreiðar með sérstökum samningi þar um. Fleiri fyrirtæki eru í samningaferli og því er ekki laust við að farið sé að lifna yfir Kolviði kappa. Á eftir löngum vetri kemur vor.

„Ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum“. Erindi stjórnarformanns Kolviðar.

Eftir Fréttir

Landsvirkjun stóð fyrir vel heppnaðri ráðstefnu í Gamla bíói þann 4. mars s.l.  Yfirskrift ráðstefnunnar var mjög í anda Kolviðar, „Ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum“ og voru flutt fjölmörg fróðleg erindi. Þar á meðal var erindi Reynis Kristinssonar stjórnarformanns Kolviðar sem hægt er að nálgast hér.

Kolviður vill koma á framfæri sérstökum þökkum til Landsvirkjunar og samstarfsaðila sem að þessu sinni komu frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Samtökum iðnaðarins auk Kolviðar. Fleiri slíkir fundir eru boðaðir á árinu en Landsvirkjun fagnar nú 50 ára starfsafmæli.

Upptöku frá ráðstefnunni má skoða hér

Tímamótasamningur undirritaður milli Icelandair Cargo og Kolviðar

Eftir Fréttir

Icelandair CargoÁ ársfundi Kolviðar, sem haldinn var í Hannesarholti 16. október, var undirritaður samstarfssamningur Kolviðar við Icelandair Cargo. Samningurinn gengur út á að Icelandair Cargo býður viðskiptavinum sýnum að kolefnisjafna þá losun sem hlýst af fraktflugi með viðkomandi vöru. Eftir nákvæma útreikninga á losun á CO2 vegna  flutninga á varningi á öllum áætlunarleiðum Flugleiða auk fraktflugs með Icelandair Cargo varð til gjaldskrá fyrir kolefnisjafnaða flugfrakt. Icelandair Cargo mun sjá um kynningu og samninga við viðskiptavini og innheimta gjöld samkvæmt áðurnefndri gjaldskrá og standa skil á þeim til Kolviðar með uppgjöri tvisvar á ári. Aðilar þessa samnings hafa unnið að þessu í nokkurn tíma og hafa fundið fyrir vaxandi áhuga og þrýstingi frá viðskiptavinum um að bjóða upp á kolefnisjafnað fraktflug.

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar og Mikael Tal Grétarsson, stjórnandi útflutningssviðs Icelandair Cargo, við undirritun í Hljóðbergi, Hannesarholti.

Landsvirkjun jafnar kolefnislosunina

Eftir Fréttir

LandsvirkjunFrétt af mbl.is 6.5.2013

Landsvirkjun og kolefnissjóðurinn Kolviður hafa skrifað undir samkomulag um að jafna alla kolefnislosun fyrirtækisins.

Um er að ræða notkun Landsvirkjunar á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og tæki, vegna flugferða starfsmanna bæði innanlands og milli landa og loks vegna förgunar úrgangs. Alls var þessi losun um 1.000 tonn CO2-ígilda á sl. ári.

Er þetta einn liður í að draga úr loftslagsáhrifum fyrirtækisins en á síðasta ári var losun koltvísýrings til andrúmsloftsins frá starfsemi Landsvirkjunar tæplega 54.000 tonn, þar af um 40.000 tonn frá jarðvarmavirkjunum, um 13.000 tonn frá lónum vatnsfallsvirkjana og um 1.000 tonn vegna aksturs og flugferða.

Skrifað undir samkomulag við Kolvið

Eftir Fréttir

Landsvirkjun - Samfelag og umhverfiFrétt af vef Landsvirkjunar 6.5.2013

Landsvirkjun og Kolviður-sjóður skrifuðu undir samkomulag í dag, 3. maí 2013, um að jafna alla kolefnislosun vegna notkunar Landsvirkjunar á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og tæki, vegna flugferða starfsmanna bæði innanlands og milli landa og loks vegna förgunar úrgangs. Alls var þessi losun um 1.000 tonnCO2-ígilda á síðastliðnu ári.

Er þetta einn liður í að draga úr loftslagsáhrifum fyrirtækisins en á síðasta ári var losun koltvísýrings til andrúmsloftsins frá starfsemi Landsvirkjunar tæplega 54.000 tonn, þar af um 40.000 tonn frá jarðvarmavirkjunum, um 13.000 tonn frá lónum vatnsfallsvirkjana og um 1.000 tonn vegna aksturs og flugferða.

Á þessu ári hefur jafnframt verið samið við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins um tvö ný svæði til kolefnisbindinar, til skógræktar að Belgsá í Fnjóskadal og til uppgræðslu að Koti í Rangárþingi. Á árinu 2011, var gerður samningum við þessa aðila um skógrækt á jörðinni Laxaborg í Dalabyggð og landgræðslu í Bolholti í Rangárþingi ytra. Landsvirkjun kostar aðgerðir og telur kolefnisbindinguna sér til tekna í kolefnisbókhaldi fyrirtækisins.

Landsvirkjun hefur staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni virkjana síðastliðin 45 ár, bæði ein og í samstarfi við aðra, meðal annars Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, skógræktarfélög og heimamenn á viðkomandi svæðum. Land sem grætt hefur verið upp fyrir tilstilli Landsvirkjunar frá stofnun fyrirtækisins er um 140 km2. Tilgangurinn er endurheimt landgæða, að draga úr raski á gróðurlendum auk þess að stöðva jarðvegsrof og gróðureyðingu.

Með aukinni vitund um loftslagsbreytingar hefur verið horft til landgræðslusvæða Landsvirkjunar með kolefnisbindingu í huga en á árinu 2012 var talið að með skógrækt og uppgræðslu hafi verið bundin um 20.000 tonn af koltvísýringi.

Samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar gefur Ísland upp kolefnislosun og áætlaða kolefnisbindingu. Hingað til hefur kolefnisbindingin verið metin út frá stærð svæða og stuðlum sem áætlaðir voru með úrtaksrannsóknum. Frá og með þessu ári er hins vegar byggt á rauntölum sem fengnar eru með mælingum á uppgræðslu- og skógræktarsvæðum samkvæmt nýjum alþjóðlegum matsaðferðum. Landsvirkjun hefur samið við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins um að annast þetta mat og fór fyrsta úttekin fram á árunum 2011- 2012 og mun síðan endurtekin á 5 ára fresti.

Ný heimasíða frá Allra Átta

Eftir Fréttir

Kolvidur_heimasidaAllra Átta hefur nú í samstarfi við Kolvið lokið við útfærslu, forritun og uppsetningu á nýrri vefsíðu, www.kolvidur.is

Vefurinn www.kolvidur.is segir frá starfseminni og gefur fyrirtækjum og einstaklingum færi á að reikna út kolefnisnotkun sína með það fyrir augum að hún verði jöfnuð með plöntun tjáa.