Í ljósi fréttar sem birtist á Vísi undir fyrirsögninni „Tekist á um gróðursetningu trjáa“ viljum við koma eftirfarandi á framfæri:
Kolviður býður upp á kolefnisbindingu með skógrækt en ekki kolefnisjöfnun. Kolefnisbinding Kolviðar með skógrækt er unnin samkvæmt alþjóðlegum ISO-14064 staðli og í samræmi við Evróputilskipanir.
Myndin sem fylgir fréttinni og gefið er í skyn að sýni gróðursetningu á vegum Kolviðar er ekki af ræktunarsvæði á vegum Kolviðar. Í vottunarferli Kolviðar samkvæmt ISO-14064 staðlinum er reiknuð öll losun sem verður við framkvæmd skógræktar.
Landval Kolviðar mótast af ýmsum þáttum – vilja landeiganda til samstarfs, hentugleika lands til skógræktar, aðgengi, beitarmálum, landslagsgerðum o.s.frv. Allar gróðursetningar Kolviðar eru byggðar á skógræktaráætlun og háðar framkvæmdaleyfi frá skipulagsyfirvöldum sveitarfélaga, þar sem iðulega er kallað eftir umsögnum stofnana sem með náttúru- og minjavernd fara.
Kolviður hefur frá stofnun árið 2006 reynt að vinna af heilindum og á grundvelli besta vinnulags hvers tíma.
Kolviður er íslenskur óhagnaðardrifinn sjóður þar sem allar tekjur fara til skógræktar.
Nýlegar athugasemdir