Frétt af vef Landsvirkjunar 6.5.2013
Landsvirkjun og Kolviður-sjóður skrifuðu undir samkomulag í dag, 3. maí 2013, um að jafna alla kolefnislosun vegna notkunar Landsvirkjunar á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og tæki, vegna flugferða starfsmanna bæði innanlands og milli landa og loks vegna förgunar úrgangs. Alls var þessi losun um 1.000 tonnCO2-ígilda á síðastliðnu ári.
Er þetta einn liður í að draga úr loftslagsáhrifum fyrirtækisins en á síðasta ári var losun koltvísýrings til andrúmsloftsins frá starfsemi Landsvirkjunar tæplega 54.000 tonn, þar af um 40.000 tonn frá jarðvarmavirkjunum, um 13.000 tonn frá lónum vatnsfallsvirkjana og um 1.000 tonn vegna aksturs og flugferða.
Á þessu ári hefur jafnframt verið samið við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins um tvö ný svæði til kolefnisbindinar, til skógræktar að Belgsá í Fnjóskadal og til uppgræðslu að Koti í Rangárþingi. Á árinu 2011, var gerður samningum við þessa aðila um skógrækt á jörðinni Laxaborg í Dalabyggð og landgræðslu í Bolholti í Rangárþingi ytra. Landsvirkjun kostar aðgerðir og telur kolefnisbindinguna sér til tekna í kolefnisbókhaldi fyrirtækisins.
Landsvirkjun hefur staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni virkjana síðastliðin 45 ár, bæði ein og í samstarfi við aðra, meðal annars Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, skógræktarfélög og heimamenn á viðkomandi svæðum. Land sem grætt hefur verið upp fyrir tilstilli Landsvirkjunar frá stofnun fyrirtækisins er um 140 km2. Tilgangurinn er endurheimt landgæða, að draga úr raski á gróðurlendum auk þess að stöðva jarðvegsrof og gróðureyðingu.
Með aukinni vitund um loftslagsbreytingar hefur verið horft til landgræðslusvæða Landsvirkjunar með kolefnisbindingu í huga en á árinu 2012 var talið að með skógrækt og uppgræðslu hafi verið bundin um 20.000 tonn af koltvísýringi.
Samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar gefur Ísland upp kolefnislosun og áætlaða kolefnisbindingu. Hingað til hefur kolefnisbindingin verið metin út frá stærð svæða og stuðlum sem áætlaðir voru með úrtaksrannsóknum. Frá og með þessu ári er hins vegar byggt á rauntölum sem fengnar eru með mælingum á uppgræðslu- og skógræktarsvæðum samkvæmt nýjum alþjóðlegum matsaðferðum. Landsvirkjun hefur samið við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins um að annast þetta mat og fór fyrsta úttekin fram á árunum 2011- 2012 og mun síðan endurtekin á 5 ára fresti.