Skip to main content

Ert þú landeigandi með áhuga á að rækta skóg til kolefnisbindingar með Kolviði?

Kolviður leigir land af landeigendum til gróðursetningar trjáplantna og er gerður þinglýstur samningur um leiguna. Vaxtarlota þess skógar sem Kolviður reiknar með er 50-60 ár og er það því tímalengd þeirra samninga um land sem Kolviður gerir.

Almennt er það svo að Kolviður gerir skógræktaráætlun fyrir landið og hefur umsjón með framkvæmdum á leigutímanum. Er skilgreint nánar í samningi hvaða þætti framkvæmda þarf að fá leyfi landeigenda (leigusala) fyrir, t.d. mannvirkjagerð. Kolviður sækir um framkvæmdaleyfi.

Kolviður hefur hingað til ekki greitt hefðbundið leigugjald á samningstímanum, heldur felst leigugjaldið í því að skógurinn (trén, kolefnisbinding umfram leigutímann og mögulegir innviðir, s.s. vegir/slóðar) verður eign landeigenda að leigutíma loknum. Til umræðu er að greiða eingreiðslu í upphafi auk þess.

Ef landeigandi vill koma að undirbúningi plöntunar með slóðagerð, girðingum ef þarf, jarðvinnslu, gróðursetningu og áburðargjöf þá greiðir Kolviður fyrir slíkt samkvæmt verðskrá Skógræktarinnar.

Kolviður útvegar plöntur, flutning á staðinn og áburð.

Almennt er leitað eftir landi a.m.k. 100 ha að stærð. Frjósamt land er æskilegast, en við skoðum flesta möguleika.

Kolviður hvetur landeigendur til að skoða þennan möguleika til landnýtingar og landbóta.

Við viljum hvetja landeigendur til þess að veita Kolviði nánari upplýsingar um mögulegt landsvæði þannig að betur sé hægt að meta hæfi þess til skógræktar. Almennt er miðað við að ljúka gróðursetningu í leiguland á innan við fimm árum eða skipta því upp í slíkar einingar.

Nánari upplýsingar um verklag Kolviðar varðandi gróðursetningu og kolefnisbindingu fá finna hér á heimasíðunni.

Ef áhugi er á að ræða þetta ítarlegar eða það eru spurningar um ákveðin atriði má senda fyrirspurn á kolvidur@kolvidur.is eða hafa samband í síma 551-8150. Við erum líka til í að hittast og ræða málin (í fjarfundi ef það hentar betur).

Sniðmát að samningi um land til ræktunar Kolviðarskóga