Skip to main content

Spurt og svarað

Hvað tekur langan tíma fyrir 20-25 tré sem gróðursett eru vegna aksturs tiltekins bíls að bæta upp fyrir losun bílsins það árið?

Skógar eru afar mikilvægir í kolefnishringrás jarðar, því er ræktun nýrra skóga alþjóðlega viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Annar sameiginlegur þráður með skógum og loftslagsmálum er nauðsyn langtímahugsunar. Þannig benda rannsóknir til að þótt dregið væri úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á þessum áratug þá yrði áhrifanna ekki vart í dvínandi gróðurhúsaáhrifum fyrr en að mörgum áratugum liðnum. Kolviður byggir nú útreikninga sína á því að það taki skóginn að meðaltali 50 ár að binda tilskilið magn af kolefni, sem er í góðu samræmi við aðgerðaáætlun alþjóðasamfélagsins um aðgerðir til að bregðast við vandanum. Í fyrsta loftslagsskógi Kolviðar var reiknaður binditími 90 ár.

Ástæður þess að hægt var að stytta reiknaðan binditíma ræðst af landgæðum og trjátegundavali og því að niðurstöður rannsókna sýna hærri kolefnisbindingu en áður og lengri og fleiri mælingar draga úr tölfræðilegri óvissu. Þau 20 -25 tré sem verða gróðursett vegna umræddrar bifreiðar munu því standa a.m.k. þann tíma og binda kolefni! Auk þess má benda á að, að því gefnu að skógurinn fái að standa eftir að reiknuðum binditíma er lokið, mun hann halda áfram að binda kolefni um ókomna tíð.

Er kolefnisbinding „leyfi til að menga“?

Nei, alls ekki. Og ekki er um að ræða neins konar „syndayfirbót“ í þeim skilningi að einstaklingar megi í framtíðinni losa gróðurhúsalofttegundir að vild svo fremi sem þeir greiði fyrir samsvarandi bindingu.

Gerðir okkar mannanna hafa áhrif á umhverfið með margvíslegum hætti og að kolefnisbinda í gegnum Kolvið er ein leið sem einstaklingar og fyrirtæki geta farið til að taka ábyrgð á áhrifum eins hluta daglegs lífs. Kolviður gerir einstaklingum og fyrirtækjum kleift að binda kolefni á móti útblástursáhrifum vegna bifreiðanotkunar og vegna flugferða, og kemur þannig til móts við þá sem vilja bera ábyrgð á áhrifum sínum á umhverfi okkar allra.

Framtíðarsýnin er að vistvænir bílar og síðar jafnvel vistvænar flugvélar muni taka við af þeim flota sem nú er í notkun. Ísland getur fræðilega orðið fyrsta land í heimi til að verða að mestu laust við jarðefnaeldsneyti ef vel tekst til með hönnun vistvænna farartækja. Þangað til er mikilvægt að taka ábyrga afstöðu til losunar koldíoxíðs og binda kolefni á móti eigin útblæstri.

Hnattræn hlýnun sem rakin er til aukins styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti er talin ein mesta umhverfisógn sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Skilvirkasta leiðin til árangurs er að draga úr losun mengandi lofttegunda. Því verður að hvetja hvern og einn til að gera sem mest til að draga úr eigin losun – samfara því að binda það magn koldíoxíðs sem óhjákvæmilega losnar úr læðingi við daglegt líf.
Kolviður hvetur hvern og einn til að hugsa í víðu samhengi um hvernig best er að vernda og varðveita umhverfið, komandi kynslóðum til handa.

Er ekki nær að bjarga regnskógunum og planta trjám þar sem þau vaxa hratt?

– Þar sem lauftré á Íslandi, eins og birki, bera aðeins lauf í fáa mánuði á ári hlýtur kolefnisbinding þeirra að vera minni hér á landi en í mörgum öðrum löndum. Er ekki nær að bjarga regnskógunum og planta trjám þar sem þau vaxa hratt og eru „í vinnu“ allt árið?

Meta verður hvert verkefni fyrir sig með tilliti til væntinga um afkastagetu, áhættu og öryggi jafnt hérlendis sem erlendis. Vaxtageta og binding koldíoxíðs ræðst af mörgum þáttum, ekki bara hitastigi og lengd vaxtartíma. Þar má nefna jarðvegskilyrði, vatnsbúskap, trjátegundir, sjúkdóma, ræktunaraðferðir eða með öðrum orðum summu allra umhverfisþátta. Skógar ræktaðir á Íslandi með blöndu af helstu trjátegundum eru síður en svo eftirbátar skóga sem ræktaðir eru á röskuðum vistkerfum annars staðar í heiminum.

Áætluð meðalbinding Kolviðar er áþekk og reiknað er með í alþjóðasamhengi. En hérlendis sem erlendis má finna dæmi um skóga sem binda margfalt meira. Þannig sýna mælingar að alaskaaspar- og sitkagreniskógar geta bundið að meðaltali 20-30 tonn af CO2/ha/ár sem er fimm til áttfalt meira en reiknuð meðalbinding Kolviðar.

Skipa má Íslandi á bekk eyðimerkurríkja þegar kemur að skógum. Þegar farið var að spyrna við fótum fyrir réttri öld lá nærri að skógareyðing hér væri alger. Skógar og kjarr þekja nú einungis um 1,5% landsins.

Með aðgerðum Kolviðar á Íslandi má ná umtalsverðum árangri. Niðurstöður rannsókna frá Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá og Landbúnaðarháskóla Íslands benda til þess að skógar sem ræktaðir eru á Íslandi þoli vel samanburð við skóga annars staðar hvað kolefnisbindingu varðar. Ísland er landríkt og við landnám er talið að allt að þriðjungur landsins hafi verið skógi vaxinn. Því eru mikil tækifæri til kolefnisbindingar og endurheimt skóga á Íslandi. Þessu til viðbótar má geta þess að binding í jarðvegi og sverði er mjög mikil hér á landi miðað við víða í öðrum löndum.

Mjög víða hér á landi mun binding kolefnis í skógi á sama tíma bæta landgæði, sporna við landrofi og foki, og auðga útivistarmöguleika Íslendinga. Í því samhengi er einkum horft til varnaraðgerða gegn eyðingu regnskóga enda er eyðing þeirra stór þáttur í þeim hnattræna vanda sem gróðurhúsaáhrifin eru. Áður en ráðist verður í beinar aðgerðir á erlendum vettvangi vill Kolviður tryggja sér traustan heimamarkað.

Hefur mikil skógrækt á norðurslóðum öfug áhrif við það sem til er ætlast ?

– Gerð hafa verið reiknilíkön sem benda til þess að mikil skógrækt á norðurslóðum hafi öfug áhrif við það sem til er ætlast og leiði til hækkandi hitastigs jarðar vegna minna endurkasts sólarljóss frá skógum en af skóglausu landi. Hefur þetta áhrif hér á landi?

Í apríl 2007 var birt grein í fræðiritinu PNAS – Proceedings of the National Academy of the United States of America þar sem nokkrir vísindamenn komust m.a. að því með módelsmíði og reiknilíkani að skógrækt á norðurslóðum geti haft þveröfug áhrif á loftslag, þ.e. auki hlýnun fremur en dragi úr henni. Ýmislegt í þessari grein hafa vísindamenn gagnrýnt. Gæta ber varhug við því að taka eina fræðigrein sem algild sannindi enda viðurkenna sömu vísindamenn og skrifa greinina að um mjög flókið ferli sé að ræða og að frekari rannsókna sé þörf.

Hvað varðar íslenskar aðstæður hefur m.a. verið bent á að snjór endurvarpar geislum öfugt við dökka fleti og að snjór getur ekki hulið skóga með sama hætti og móa, tún og engjar. Hér skal hafa í huga að skógrækt á Íslandi er aðeins möguleg á láglendi og rysjótt veðurfar hér veldur því að snjóþekja á láglendi er afar takmörkuð og því áhrif skógræktar á endurskin allt önnur og minni en inni á meginlöndum Norður-Ameríku og Evrasíu. Þar getur land verið snævi þakið í allt að 9 mánuði á ári. Aftur á móti hefur snjór þakið jörð aðeins 13% ársins að meðaltali síðastliðin 10 ár í Reykjavík. Þar að auki eru mestu líkurnar á snjóþekju hér á dimmustu dögum ársins.

Skógræktin hefur tekið saman ágætis pistla um þessi mál, en þessi spurning um endurskinið kemur reglulega upp. Lesa má þessa pistla á heimasíðu Skógræktarinnar:

https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/skograekt-er-mikilvaegur-hluti-af-framlagi-islands-til-loftslagsmala 

og

https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/skogur-vinnur-gegn-loftslagsroskun

Reiknar Kolviður út losun tengda starfsemi minni?

Nei, því miður. Það eru ýmis fyrirtæki sem bjóða upp á þjónustu með slíka útreikninga, t.d. Klappir Grænar lausnir, Efla verkfræðistofa og fleiri. Einnig getur Loftslagsmælir Festu hjálpað til.

Fyrirtækið mitt er að kolefnisbinda hjá Kolviði. Geta starfsmenn fyrirtækisins sett niður plönturnar sem þarf að gróðursetja í „okkar reit“?

Stutta svarið er nei, því miður. Gróðursetningar Kolviðar þurfa að standast ákveðnar gæðakröfur og eru því gerðar af fólki með þjálfun og reynslu til að tryggja góða lifun á plöntunum þannig að Kolviður geti staðið við þá kolefnisbindingu sem um ræðir. Kolviður þarf á ári hverju talsvert land til plöntunar og stefnt er að því að hafa land til plöntunar í hverjum landsfjórðungi. Stöðugt er unnið í að afla, skipuleggja og vinna ný lönd til plöntunar Kolviðarskóga. Plöntun í hvert svæði skal vera lokið innan fimm ára vegna umsjónar, mælinga og skráninga í gagnagrunna skógargeirans.