Útblástur vegna vegasamgangna á Íslandi hefur aukist jöfnum höndum undanfarin ár og nam 975 þúsund tonnum árið 2017.
Fjöldi bíla á hvern íbúa á Íslandi er með því mesta sem gerist í heiminum. Að sama skapi er bílaflotinn hér orkufrekur.
Stærð slagrýmis véla og þyngd bíla hefur áhrif á útblástur. Bílaflotinn í heild er einn sá orkufrekasti í heimi miðað við fólksfjölda. Rafbílar og tengitvinnbílar eru þegar farnir að leysa bensín- og díselbíla af hólmi sem fjölskyldu- og fyrirtækjabílar. Á móti kemur að ferðaþjónustufyrirtæki hafa í vaxandi mæli verið að bjóða upp á ferðir á ofurjeppum eða stórum fjallatrukkum.
Hægt er að fara margvíslegar leiðir til að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) frá bílaflotanum, m.a með færri bílum, sparneytnari bílum og nýtingu umhverfisvænni orkugjafa. Hegðun fólks hefur einna mest áhrif á eldsneytisbrennslu, bæði það hvernig fólk notar bílinn sem samgöngutæki og hvernig það ekur honum.
Borgarskipulag hefur einnig mikil áhrif því ef hægt að skipuleggja með þeim hætti að minni þörf sé á bílum sem samgöngutæki (t.d. til og frá vinnu) þá dregur um leið úr losun koldíoxíðs. Þá má nefna umferðarstjórnun en samhæfing umferðarljósa getur t.d. stuðlað að minni losun. Einnig hefur ástand vega talsverð áhrif á eyðslu og þar með losun ökutækja.
Með vaxandi ferðamannastraumi til Íslands hefur losum frá flugsamgöngum og farþegaskipum aukist verulega á síðustu tíu árum. Ætla má að losun koldíoxíðs frá farþegaflugi tengdu Íslandi sé nú um 2 milljónir tonna og hefur fjórfaldast frá árinu 2012. Engar lausnir eru í sjónmáli til að draga úr losun frá flugi aðrar en að draga úr sætaframboði/flugferðum og velja aðra ferðamáta. Hvað skemmtiferðaskipin varðar þá má draga úr losun þeirra með því að tengja þau við rafveitur þegar þau liggja í höfn en til þess þarf að efla dreifikerfi rafmagns verulega.
Meðal leiða sem einstaklingar geta farið til að draga úr losun koldíoxíðs vegna samgangna eru:
- Aka um á metanbíl eða rafbíl
- Velja sparneytinn bíl, t.d. tengitvinnbíl
- Ganga eða hjóla styttri ferðir
- Nota almenningssamgöngur eins og hægt er
- Spara sér ferðir með góðu skipulagi
- Vanda aksturslag/stunda vistakstur
- Huga að viðhaldi ökutækis
- Fækka flugferðum eins og kostur er