Skógar eru afar mikilvægir í kolefnishringrás jarðar, því er ræktun nýrra skóga alþjóðlega viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Annar sameiginlegur þráður með skógum og loftslagsmálum er nauðsyn langtímahugsunar. Þannig benda rannsóknir til að þótt dregið væri úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á þessum áratug þá yrði áhrifanna ekki vart í dvínandi gróðurhúsaáhrifum fyrr en að mörgum áratugum liðnum. Kolviður byggir nú útreikninga sína á því að það taki skóginn að meðaltali 50 ár að binda tilskilið magn af kolefni, sem er í góðu samræmi við aðgerðaáætlun alþjóðasamfélagsins um aðgerðir til að bregðast við vandanum. Í fyrsta loftslagsskógi Kolviðar var reiknaður binditími 90 ár.
Ástæður þess að hægt var að stytta reiknaðan binditíma ræðst af landgæðum og trjátegundavali og því að niðurstöður rannsókna sýna hærri kolefnisbindingu en áður og lengri og fleiri mælingar draga úr tölfræðilegri óvissu. Þau 20 -25 tré sem verða gróðursett vegna umræddrar bifreiðar munu því standa a.m.k. þann tíma og binda kolefni! Auk þess má benda á að, að því gefnu að skógurinn fái að standa eftir að reiknuðum binditíma er lokið, mun hann halda áfram að binda kolefni um ókomna tíð.