Minnkun útblásturs

Útblástur vegna vegasamgangna á Íslandi hefur aukist jöfnum höndum undanfarin ár og nam 750 þúsund tonnum á síðasta ári.

Fjöldi bíla á hvern íbúa á Íslandi er með því mesta sem gerist í heiminum, um 665 bílar/1000 íbúa og raunar meiri en ætluð mettunarmörk voru fyrr á árum (600 bílar/1000 íbúa).

Fjöldi stórra bíla hefur verið áberandi hér á landi eins og víða í hinum vestræna heimi. Þó hefur borið töluvert meira á stórum pallbílum í almennri umferð hér á landi sem falla í flokk atvinnubíla og hafa fram að þessu borið lægri tolla. Stærð slagrýmis véla og þyngd bíla hefur áhrif á útblástur. Bílaflotinn í heild er einn sá orkufrekasti í heimi miðað við fólksfjölda.

Hægt er að fara margvíslegar leiðir til að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) frá bílaflotanum, m.a með færri bílum, sparneytnari bílum og nýtingu umhverfisvænni orkugjafa. Hegðun fólks hefur einna mest áhrif á eldsneytisbrennslu, bæði það hvernig fólk notar bílinn sem samgöngutæki og hvernig það ekur honum.

Borgarskipulag hefur einnig mikil áhrif því ef hægt að skipuleggja með þeim hætti að minni þörf sé á bílum sem samgöngutæki (t.d. til og frá vinnu) þá dregur um leið úr losun koldíoxíðs. Þá má nefna umferðarstjórnun en samhæfing umferðarljósa getur t.d. stuðlað að minni losun.

Meðal leiða sem einstaklingar geta farið til að draga úr losun koldíoxíðs vegna samgangna eru:
  • Kaupa sér sparneytinn bíl
  • Ganga eða hjóla styttri ferðir
  • Nota almenningssamgöngur eins og hægt er
  • Spara sér ferðir með góðu skipulagi
  • Vanda aksturslag/stunda vistakstur
  • Huga að viðhaldi ökutækis