Skip to main content

Lög um losun gróðurhúslofttegunda

I. Kafli
Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið laganna er að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

2. gr.

Gildissvið.

Lögin gilda um skráningu og bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda á landi og í mengunarlögsögu Íslands og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi, svo og heimildir til losunar koldíoxíðs frá tilteknum atvinnurekstri skv. 7. gr.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í lögum þessum er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

1. Atvinnurekstur: Öll starfsemi sem heimiluð er í samræmi við ákvæði starfsleyfis sem gefið er út samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

2. Ákvörðun 14/CP.7: Ákvörðun 7. aðildarríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um áhrif einstakra verkefna á losun á skuldbindingartímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012.

3. Gróðurhúsalofttegundir: Koldíoxíð (CO2), metan (CH4), díköfnunarefnisoxíð (N2O), vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC), brennisteinshexaflúoríð (SF6).

4. Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af mannavöldum.

5. Losunarheimild: Heimild til losunar koldíoxíðs. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíði á ári.

4. gr.

Yfirstjórn.

Umhverfisráðuneyti hefur yfirumsjón með framkvæmd laga þessara eftir því sem nánar er tilgreint í lögum þessum í samráði við viðkomandi ráðuneyti.

Þriggja manna úthlutunarnefnd losunarheimilda, skipuð af umhverfisráðherra samkvæmt tilnefningu, sem í sitja fulltrúar iðnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, úthlutar losunarheimildum til atvinnurekstrar sem fellur undir gildissvið laganna á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012. Fulltrúi iðnaðarráðuneytis skal vera formaður úthlutunarnefndar losunarheimilda. Tilnefningaraðilar bera kostnað af þátttöku sinna fulltrúa í úthlutunarnefndinni.

Umhverfisstofnun fer með framkvæmd laga þessara hvað varðar bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda, skráningarkerfi og eftirlit með losun koldíoxíðs frá atvinnurekstri skv. 7. gr. Umhverfisstofnun skal vera úthlutunarnefndinni, sbr. 2. mgr., til ráðgjafar varðandi umsóknir um losunarheimildir og um annað sem nefndin óskar aðstoðar við.

 

II. Kafli
Bókhald og skráningarkerfi.

5. gr.

Bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfisstofnun heldur bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á því sviði.

Landbúnaðarháskóli Íslands skal taka saman upplýsingar varðandi landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt sem krafist er vegna bókhaldsins, sbr. 1. mgr., sem og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, og skila þeim til Umhverfisstofnunar. Orkustofnun skal taka saman og skila upplýsingum um orkumál, sem krafist er vegna bókhaldsins, til Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun skal útbúa leiðbeiningar um skil á gögnum sem óskað er eftir í samráði við Landbúnaðarháskóla Íslands og Orkustofnun. Umhverfisráðherra staðfestir leiðbeiningar Umhverfisstofnunar.

6. gr.

Skráningarkerfi.

Umhverfisstofnun vistar skráningarkerfi um heimildir Íslands til losunar gróðurhúsalofttegunda og sér um rekstur þess.

Skráningarkerfið heldur utan um útgáfu, handhöfn, framsal og ógildingu heimilda íslenska ríkisins samkvæmt Kyoto-bókuninni auk losunarheimilda atvinnurekstrar skv. 7. gr. og annarra lögaðila. Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um nánari útfærslu á skráningarkerfinu, hvaða upplýsingar skuli skráðar í kerfið, um samvinnu og samtengingu við önnur kerfi, rekstur kerfisins og hvernig farið skuli með útgáfu, handhöfn, framsal og ógildingu heimilda Íslands auk losunarheimilda atvinnurekstrar skv. 7. gr.

Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá vegna gjalds sem atvinnurekstur skv. 7. gr. og aðrir lögaðilar sem eiga reikning í skráningarkerfinu skulu greiða. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggjast á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

 

III. Kafli
Losunarheimildir atvinnurekstrar.

7. gr.

Skylda atvinnurekstrar til öflunar losunarheimilda.

Atvinnurekstri skv. 2. mgr. er óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 nema hann hafi aflað sér losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig hann muni afla sér losunarheimilda vegna tímabilsins eða þess tímabils sem áætlað er að rekstur standi yfir og úthlutunarnefnd hefur fallist á.

Eftirfarandi atvinnurekstri ber að afla sér losunarheimilda vegna losunar koldíoxíðs á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012:

a. staðbundinni orkuframleiðslu með brennslu jarðefnaeldsneytis sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega,

b. staðbundinni iðnaðarframleiðslu sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega.

8. gr.

Umsókn um úthlutun losunarheimilda.

Atvinnurekstur skal sækja um úthlutun á losunarheimildum til Umhverfisstofnunar eigi síðar en níu mánuðum áður en fyrirhugað er að starfsemin hefjist. Í umsókninni skal eftirfarandi koma fram:

a. upplýsingar um atvinnureksturinn (framleiðsluna), eiganda, staðsetningu og rekstraraðila,

b. upplýsingar um þann hluta starfseminnar sem er uppspretta losunar,

c. ráðstafanir sem gerðar eru til að halda losun í lágmarki,

d. áætlun um hvernig fylgst er með losun koldíoxíðs,

e. heildarmagn losunarheimilda sem óskað er eftir að úthlutað verði til viðkomandi atvinnurekstrar fyrir tímabilið.

Atvinnurekstur sem fellur undir þau skilyrði sem sett eru varðandi úthlutun sérstakra heimilda til Íslands samkvæmt ákvörðun 14/CP.7 skal tilgreina hvernig losun koldíoxíðs fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í þeirri ákvörðun.

Umhverfisstofnun ber að fara yfir umsókn um úthlutun losunarheimilda og framsenda til úthlutunarnefndar ásamt umsögn stofnunarinnar þar sem fram kemur hvort umsóknin uppfylli skilyrði 1. og 2. mgr.

Úthlutunarnefnd losunarheimilda er heimilt að krefja atvinnurekstur um frekari upplýsingar á grundvelli umsagnar Umhverfisstofnunar og ef þær berast ekki vísa umsókn frá.

Atvinnurekstur sem sækir um úthlutun á losunarheimildum skal greiða til Umhverfisstofnunar 250.000 kr. umsóknargjald sem standa skal undir kostnaði stofnunarinnar við yfirferð yfir umsóknina.

9. gr.

Áætlun um úthlutun losunarheimilda.

Úthlutunarnefnd losunarheimilda skal gefa út áætlun eigi síðar en 1. október 2007 um úthlutun losunarheimilda til atvinnurekstrar vegna tímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2012.

Í áætlun úthlutunarnefndar skal tiltekið hve mörgum losunarheimildum er fyrirhugað að úthluta til hvers atvinnurekstrar sem sækir um, sbr. 8. gr., á hverju ári á tímabilinu. Áætlun úthlutunarnefndar er bindandi hvað varðar úthlutun til atvinnurekstrar nema ákvæði 4. mgr. eigi við. Úthlutunarnefnd skal við gerð áætlunarinnar fara eftir ákvæðum 11. gr. vegna úthlutunar til atvinnurekstrar.

Heildarmagn losunarheimilda sem úthlutunarnefnd hefur til úthlutunar fyrir tímabilið 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 er 10.500.000 losunarheimildir, þar af 8.000.000 losunarheimildir sem fullnægja þurfa skilyrðum sem sett eru fram í ákvörðun 14/CP.7.

Úthlutunarnefndin skal árlega fara yfir áætlunina með hliðsjón af skýrslum atvinnurekstrar, sbr. 13. gr., nýjum umsóknum sem kunna að berast og mati á breyttum aðstæðum. Einungis er heimilt að skerða losunarheimildir til atvinnurekstrar sem fengið hefur vilyrði um úthlutun í áætlun, sbr. 1. og 2. mgr., ef breytingar hafa orðið í rekstrinum sem hafa orðið þess valdandi að starfsemi eða losun frá henni sé minni en gert var ráð fyrir við útgáfu áætlunarinnar.

10. gr.

Úthlutun losunarheimilda.

Úthlutunarnefnd losunarheimilda úthlutar árlega losunarheimildum til atvinnurekstrar sem sækir um úthlutun í samræmi við áætlun um úthlutun losunarheimilda. Úthlutunarnefndin sendir Umhverfisstofnun upplýsingar um árlega úthlutun til einstaks atvinnurekstrar, sbr. 2. mgr.

Losunarheimildir sem úthlutunarnefndin úthlutar eru bókfærðar af Umhverfisstofnun 1. mars ár hvert á reikning viðkomandi atvinnurekstrar í skráningarkerfinu.

11. gr.

Viðmið um úthlutun losunarheimilda.

Úthlutunarnefnd losunarheimilda skal hafa eftirfarandi viðmið til hliðsjónar við gerð áætlunar um úthlutun á losunarheimildum til atvinnurekstrar vegna tímabilsins 1. janúar 2008 – 31. desember 2012:

a. Fyrir atvinnurekstur sem var starfandi fyrir 1. janúar 2007 skal úthlutun taka mið af mældri eða áætlaðri meðaltalslosun koldíoxíðs á árunum 2005 og 2006.

b. Ef atvinnurekstur hefur ekki verið í rekstri í eitt eða fleiri af viðmiðunarárunum, eða aðrar ástæður leiða til þess að árabilið 2005–2006 lýsir ekki meðallosun, er heimilt að vísa til annarra viðmiðunarára eða sýna fram á hver sé meðallosun atvinnurekstrar á annan sambærilegan hátt.

c. Fyrir atvinnurekstur sem hefur starfsemi eftir 1. janúar 2007, eða hyggur á framleiðsluaukningu eftir þann tíma, skal taka mið af áætlaðri losun, miðað við að notuð sé besta fáanleg tækni til að halda losun koldíoxíðs í lágmarki.

Ef umsóknir um losunarheimildir fyrir tímabilið 2008–2012 eru samanlagt meiri en úthlutunarnefnd losunarheimilda hefur til umráða skal fyrst úthluta til þess atvinnurekstrar sem hafið hefur starfsemi áður en fyrsta skuldbindingartímabil hefst 1. janúar 2008. Því sem þá er eftir til ráðstöfunar skal úthluta til annarra umsækjenda sem hyggjast hefja starfsemi eða auka starfsemi eftir 1. janúar 2008. Umsækjendur sem hafa þegar starfsleyfi og/eða eru komnir langt í undirbúningi framkvæmda skulu njóta forgangs við ákvörðun um úthlutun losunarheimilda í áætlun úthlutunarnefndar umfram aðra sem skemmra eru komnir í undirbúningi.

12. gr.

Skráning og meðferð losunarheimilda.

Atvinnurekstur sem er skyldur til að eiga losunarheimildir skal fyrir 1. maí ár hvert færa nægjanlega margar losunarheimildir í samræmi við skýrslu um losunarheimildir síðasta árs inn á sérstakan lokareikning í skráningarkerfi.

Atvinnurekstri sem úthlutað er losunarheimildum er leyfilegt að færa ónotaðar heimildir á milli ára, enda fullnægi viðkomandi enn þá öllum skilyrðum varðandi úthlutun losunarheimilda.

Ónýttar losunarheimildir atvinnurekstrar 31. desember 2012 verða eign ríkisins og bókfærðar sem slíkar í skráningarkerfi.

13. gr.

Eftirlit, áætlun og skýrslugerð.

Með úthlutun losunarheimilda til atvinnurekstrar skal fylgja skrifleg greinargerð með skilyrðum varðandi eftirlit með framfylgd áætlunar og krafa um árlega skýrslu um losun koldíoxíðs.

Atvinnurekstur sem fær úthlutað losunarheimildum skal skila 1. mars 2009 og árlega eftir það skýrslu um losun koldíoxíðs til Umhverfisstofnunar. Í skýrslunni skulu koma fram upplýsingar um stöðu losunarheimilda í upphafi fyrra árs, losun koldíoxíðs á árinu og stöðu losunarheimilda í lok árs, auk annarra upplýsinga sem gerðar eru kröfur um við úthlutun losunarheimilda. Í hinni árlegu skýrslu skulu losunarheimildir reiknaðar eða mældar í samræmi við reglur sem settar verða í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um hvaða upplýsingum um losun koldíoxíðs skuli skilað, hvenær og á hvaða formi. Einnig skal kveðið á um heimildir Umhverfisstofnunar til að gera kröfu um staðfestingu áreiðanleika veittra upplýsinga.

Umhverfisstofnun ber að fara yfir hvort skýrsla um losun koldíoxíðs sé í samræmi við settar reglur. Stofnuninni ber að senda skýrslu um losun koldíoxíðs til úthlutunarnefndar losunarheimilda ásamt greinargerð.

Atvinnurekstri sem úthlutað er losunarheimildum ber einnig að skila upplýsingum til Umhverfisstofnunar um losun annarra gróðurhúsalofttegunda. Upplýsingunum skal skilað með árlegri skýrslu um losun koldíoxíðs eða með annarri skýrslugerð til stofnunarinnar.

Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir yfirferð yfir skýrslu um losun koldíoxíðs sem skila ber til stofnunarinnar. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggjast á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

14. gr.

Öflun losunarheimilda án úthlutunar.

Atvinnurekstri er heimilt að afla sér losunarheimilda á annan hátt en með úthlutun losunarheimilda skv. 9. gr., svo sem með fjármögnun verkefna á sviði bindingar kolefnis í gróðri og jarðvegi, með þátttöku í verkefnum á sviði loftslagsvænnar þróunaraðstoðar eða sameiginlegrar framkvæmdar eða kaupum á losunarheimildum erlendis frá. Umhverfisráðherra er heimilt að setja reglugerð með nánari ákvæðum um hvaða losunarheimildir hann metur gildar að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar.

 

IV. Kafli
Viðurlög og gildistaka.

15. gr.

Viðurlög.

Umhverfisstofnun leggur stjórnvaldssektir á atvinnurekstur sem er skylt að eiga losunarheimildir og hefur ekki lagt inn nægjanlegar heimildir á lokareikning fyrir 1. maí hvert ár vegna síðastliðins árs. Skal sektin nema 9.000 kr. vegna hverrar losunarheimildar sem upp á vantar í samræmi við skýrslu um losun koldíoxíðs frá atvinnurekstri þess árs, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Sektir samkvæmt þessari grein renna í ríkissjóð.

Umhverfisstofnun er heimilt að ákvarða sektir allt að 100.000 kr. á dag ef atvinnurekstur sinnir ekki skyldu um skil á skýrslu skv. 13. gr.

 

16. gr.

Gildistaka.

Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 107/2006, um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda.

Ákvæði til bráðabirgða.

Starfandi atvinnurekstur sem fellur undir lög þessi skal sækja um losunarheimildir fyrir tímabilið 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 í síðasta lagi 1. júní 2007, sbr. 8. gr.

 

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.