Upphafið, hugmyndin, stofnendur

Upphafið

Hugmyndin að stofnun Kolviðar kom frá hljómsveitinni Fræbbblunum, sem árið 2003 hélt minningartónleika um Joe Strummer, söngvara hljómsveitarinnar Clash sem var þekktur fyrir áhuga á loftslagsmálum. Tónleikarnir voru haldnir í samvinnu við Landvernd og Skógræktarfélag Íslands. Ágóði tónleikanna rann til Kolviðar.

Hugmyndin

Styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, einkum koldíoxíðs (CO2), hefur aukist gríðarlega á síðustu fimmtíu árum. Að óbreyttu mun sú aukning halda áfram af vaxandi þunga sem gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir umhverfi og lífsskilyrði jarðarbúa. Þennan vöxt í styrk koldíoxíðs má fyrst og fremst rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis auk eyðingar skóga og hnignunar gróðurvistkerfa.

Hugmyndafræðin að baki Kolviði byggir á bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu með skógrækt en tré binda kolefni (C) en leysa súrefni (O2), út í andrúmsloftið. Sjóðurinn hvetur til að dregið sé úr losun gróðurhúsalofttegunda af fremsta megni, og til kolefnisbindingar í jarðvegi og gróðri fyrir þá losun sem óhjákvæmileg er.

Stofnendur

Stofnendur Kolviðar eru Skógræktarfélag Íslands og Landvernd