Kolviðarskógar

Kolviðarskógar eru skógar sem eru ræktaðir eða friðaðir í þeim tilgangi að sporna við uppsöfnun koldíoxíðs (CO2) í andrúmsloftinu.

Með ljóstillífun breyta tré koldíoxíði og vatni í sykrur (kolefnasambönd) og skilja út súrefni. Kolefni binst í stofni, rótum og greinum en einnig í skógarbotni og í jarðvegi. Kolviður hefur valið þá leið að reikna aðeins með þeirri bindingu sem á sér stað á trjábolum og rótum trjánna. Þannig á sér stað umtalsverð binding umfram þá sem Kolviður reiknar sér til bókar.

Bindigeta skóga er breytileg eftir landgæðum og tegundasamsetningu skógarins. Samkvæmt rannsóknum Rannsóknarstöðvar skógræktar getur árleg binding numið um og yfir 20 tonn af CO2 á hektara. Val trjátegunda hefur einnig áhrif. Sumar trjátegundir lifa um mannsaldur en aðrar vaxa í mörg hundruð ár. Fái náttúran að hafa sinn gang fellur gamli skógurinn og kolefnið binst í sverðinum og ný kynslóð tekur við.

Á illa förnu landi verða ræktaðir fjölbreyttir skógar sem binda kolefni auk þess sem þeir gegna fjölþættu hlutverki fyrir menn og lífríki. Kolviðarskógar sem ræktaðir eru á Íslandi skulu verða opnir almenningi sem yndisskógar.

Kolviður vinnur eftir leiðbeiningum Skógræktarfélags Íslands “Skógrækt í sátt við umhverfið”  og rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.  Leiðbeiningar um Skógrækt í sátt við umhverfið voru unnar í samvinnu við allar helstu stofnanir á sviði náttúruverndar og landgræðslu og umhverfisverndarsamtök. Þar eru upplýsingar um hvaða þættir það eru sem þarf að taka tillit til eða varast við skógrækt, t.d. hvað varðar náttúruvernd. Kolviður gerir langtímasamninga við landeigendur og skógræktendur um ræktun kolefnisskóga á áður skóglausu landi. Gengið er þannig frá samningum við landeigendur að ef skógur þarf að víkja fyrir öðrum landnotum fái Kolviður tapaða bindingu að fullu bættar.

Fyrsti Kolviðarskógurinn er á Geitasandi í landi Stóra-Hofs á Rangárvöllum. En nýverið hóf sjóðurinn skógrækt í landi Skógræktarfélags Íslands og Skáta á Úlfljótsvatni. Hér má nálgast fyrstu óháðu úttektarskýrslu á árangri skógræktar á Geitasandi.