Reglur um merki Kolviðar

 

Merki Kolviðar í bíla

Kolviður útbýr merki sem þeim er kolefnisjafnar losun ökutækis á CO2 er látið í té og hægt er að setja í glugga ökutækisins þannig að þeim sem það notar til eigin þarfa eða annarra, sé það ljóst. Með þessu gefur eigandi bifreiðarinnar til kynna að hann vilji sýna samfélagslega ábyrgð gagnvart umhverfinu.

Sá sem fær í hendur merki til að setja í ökutæki ber ábyrgð á því að fjarlægja það þegar sá tími sem umsamin kolefnisjöfnun nær til er liðinn. Notkun þess að þeim tíma liðnum er samningsbrot og sendir röng skilaboð til samfélagsins.

Selji umráðarmaður ökutækis með merki um kolefnisjöfnun tækið, ber honum að fjarlægja merkið.

Kolviður lætur honum í té nýtt merki í nýtt tæki sé um endurnýjun að ræða.

Í þeim tilvikum þar sem ökutæki eru í tímabundinni notkun t.d. í ferðaþjónustu eru látin í té sá fjöldi merkja sem kolefnisjöfnunin nær til.

 

Notkun á merki Kolviðar á kynningargögn

Samningsaðilum um kolefnisjöfnun er heimilt að nota merki Kolviðar á kynningarefni og önnur skjöl sem upplýsa viðskiptavini um samfélagslega ábyrgð samningsaðila á samningstímanum. Mikilvægt er að skýrt komi fram hvaða þættir í starfseminni eru kolefnisjafnaðir þannig að viðskiptavinum séu ekki send röng skilaboð því slíkt getur skaðað bæði orðspor viðkomandi fyrirtækis sem og Kolviðar.

Að samningstíma liðnum er óheimilt að nota merki Kolviðar, notkun þess þá er samningsbrot.

 

Merki Kolviðar á fiskumbúðir

Fiskútflytjendum sem kolefnisjafna flugfrakt á ferskum fiski samkvæmt samningi við Icelandair Cargo er heimilt að nota merki Kolviðar til þess að sýna fram á samfélagslega ábyrgð viðkomandi aðila með því að kolefnisjafna viðkomandi flugfrakt frá Íslandi að lendingarstað.

Merki Kolviðar má vera á viðkomandi umbúðum, skjölum og kynningarefni til þess að undirstrika stefnu viðkomandi fyrirtækis. Skýrt skal koma fram að um kolefnisjöfnun á flugfrakt er að ræða og ekki má gefa annað í skyn t.d. er hægt að láta koma fram „Carbon neutralized airfreight“ undir merki Kolviðar.

Að samningstíma liðnum er óheimilt að nota merki Kolviðar, notkun þess þá er samningsbrot.

 

Merki Kolviðar á drykkjarumbúðir

Drykkjarvöruframleiðendum með samning um kolefnisjöfnun á flutningi vörunnar frá Íslandi til uppskipunarhafnar er heimilt að nota merki Kolviðar á drykkjavöruumbúðir sínar (flöskur) sem og ytri umbúðir. Koma skal skýrt fram hvaða þættir í ferli vörunnar eru kolefnisjafnaðir.

 

Reykjavík 25. nóvember 2013