Skip to main content
All Posts By

a8

Ölgerðin gerir samning við Kolvið

Eftir Fréttir

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf. hefur gert samning við Kolvið um að kolefnisjafna helming heildarlosunar fyrirtækisins. Ölgerðin er, líkt og mörg önnur stór fyrirtæki, búin að innleiða heildstæða hugbúnaðarlausn, Klappir Core frá fyrirtækinu Klappir, Grænar lausnir hf. Hugbúnaðurinn vaktar losun í rauntíma og stuðlar þannig að minni losun og bættri yfirsýn yfir reksturinn. Mjög er þetta í anda Kolviðar sem hefur frá upphafi lagt áherslu á minni losun og að óhjákvæmileg losun sé kolefnisjöfnuð.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, við undirritun samningsins.

Ársfundur Kolviðar 2019

Eftir Fréttir

Ársfundur Kolviðar var haldinn á fyrsta degi þorra og var vel sóttur. Um var að ræða hádegisfund og var boðið upp á ljúffenga grænmetissúpu og brauð frá Sölufélagi garðyrkjumanna.

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, rakti rekstrartölur Kolviðar frá upphafi. Umtalsverð aukning hefur orðið í sölu kolefnisbindingar og þá sérstaklega síðast liðin þrjú ár. Unnið hefur verið að stefnumótun fyrir sjóðinn og tókst að ljúka henni fyrir áramót. Í kjölfarið var ákveðið að endurnýja vefsíðu Kolviðar.

Einar Gunnarsson, stjórnarmaður Kolviðar, greindi frá skógræktarverkefnum sjóðsins.

Dr. Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, fjallaði um rannsóknir sínar og annarra á kolefnisbindingu í trjám og gróðri. Að lokum fjölluðu Björn Traustason, sérfræðingur á Rannsóknarstöð Skógræktarinnar á Mógilsá, og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um hugmyndir að loftslagsskógi á Mosfellsheiði. Auk þess að binda kolefni myndi slíkur skógur skýla byggð á höfuðborgarsvæðinu fyrir tíðum austanáttum og verða útivistarskógur líkt og Heiðmörkin.

Fundargestir gerðu góðan róm að því sem bar á góma og horfa björtum augum til framtíðar.

 

Erindi Reynis Kristinssonar (pdf)

Erindi Einars Gunnarssonar (pdf)

Erindi Brynhildar Bjarnadóttur (pdf)

Erindi Björns Traustasonar og Einars Sveinbjörnssonar (pdf)

Lykill kolefnisjafnar bílaflotann

Eftir Fréttir

Nýverið var skrifað undir samning milli Kolviðar og Lykils um að kolefnisjafna bílaflota Lykils. Framtak Lykils er lofsvert í ljósi þess að fyrirtækið er að taka á sig losun viðskiptavina sinna.

Kolviður skuldbindur sig þar með til að gróðursetja 10.000 tré á ári til að kolefnisjafna 1.000 tonna losun á CO2.

F.v. Einar Gunnarsson stjórnarmaður Kolviðar, Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðar og Sverrir Viðar Hauksson, sviðstjóri viðskiptasviðs Lykils fjármögnunar.

Kolviður kaupir 12 milljónir birkifræja

Eftir Fréttir

Nýverið tryggði Kolviður sér birkifræ til að nota í verkefnum sínum á næstu árum. Vegna langvarandi vanefnda stjórnvalda á framlögum til skógræktar hafa plöntuframleiðendur einn af öðrum verið að hellast úr lestinni. Nú er fullkomnasta skógarplöntustöð landsins, Barri ehf á Fljótdalshéraði, að leggja niður starfsemi og selja frá sér alla lausa muni. Það varð úr að Kolviður keypti birkifræforða Barra sem geymdur er í Svíþjóð. Um er að ræða birkifræ af Bæjarstaðauppruna safnað í Bolholti á Rangárvöllum og Tinmýri á Hallormsstað.

Kolefnisjöfnuðum fyrirtækjum fjölgar

Eftir Fréttir

Nýverið bættust nokkur fyrirtæki í hóp þeirra sem kolefnisjafna hluta starfsemi sinnar í gegnum Kolvið og eru það fyrirtækin Bergs, sem flytur út ferskan fisk, Efla verkfræðistofa, Landsnet, Neyðarlínan, Nordic Green travel og Vodafone. Greinilegt er að vaxandi skilningur er á nauðsyn þess að taka ábyrgð á eigin losun gróðurhúsalofttegunda með mótvægisaðgerðum. Að beina sjónum að kolefnisbókhaldi leiðir einnig til aðgerða til að draga úr losun, t.d. með því að kaupa vistvænni bíla,  og hvetja starfsfólk til vistvænni ferðamáta. Þá hafa Valitor og Vodafone boðið starfsmönnum að kolefnisjafna einkabifreiðar með sérstökum samningi þar um. Fleiri fyrirtæki eru í samningaferli og því er ekki laust við að farið sé að lifna yfir Kolviði kappa. Á eftir löngum vetri kemur vor.

„Ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum“. Erindi stjórnarformanns Kolviðar.

Eftir Fréttir

Landsvirkjun stóð fyrir vel heppnaðri ráðstefnu í Gamla bíói þann 4. mars s.l.  Yfirskrift ráðstefnunnar var mjög í anda Kolviðar, „Ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum“ og voru flutt fjölmörg fróðleg erindi. Þar á meðal var erindi Reynis Kristinssonar stjórnarformanns Kolviðar sem hægt er að nálgast hér.

Kolviður vill koma á framfæri sérstökum þökkum til Landsvirkjunar og samstarfsaðila sem að þessu sinni komu frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Samtökum iðnaðarins auk Kolviðar. Fleiri slíkir fundir eru boðaðir á árinu en Landsvirkjun fagnar nú 50 ára starfsafmæli.

Upptöku frá ráðstefnunni má skoða hér